Innlent

Vill sjá menntastofnun í Landsbankahúsinu

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur segir höfuðstöðvar Landsbankans vera betri kost á Austurhöfn heldur en aðra hótelbyggingu. Ekki hafi verið ákveðið hvað gert verði við eignir bankans í miðbænum, en að menntastofnun myndi sóma sér vel á staðnum.Landsbankinn hefur tekið ákvörðun um að ráðast í byggingu nýrra höfuðstöðva við Austurhöfn í Reykjavík. Áformin hafa verið gagnrýnd nokkuð harðlega, meðal annars um byggingin sé of kostnaðarsöm en áætlaður byggingarkostnaður er um 8 milljarðar króna. Þá hefur verið deilt um hvort 16.500 fermetra höfuðstöðvar banka þurfi að vera í hjarta borgarinnar.Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur, tekur ekki undir þær áhyggjur.„Nú er Landsbankinn, svona eftir fjárglæfralega snúninga, kominn í rauninni í eigu almennings í landinu. Þannig að mér finnst það alveg, út af fyrir sig, koma til greina að bankinn sé með höfuðstöðvar sínar hér í miðborginni,” segir Hjálmar.Hann segir að ef Landsbankinn myndi ekki byggja á reitnum myndi líklegast rísa þar ný hótelbygging.„Og þá er ég nú hræddur um að það yrði of mikið af hótelum inn á þessu svæði, og lundabúðum. Þannig að ég held að höfuðstöðvar Landsbankans, svo lengi sem það er staðið vel að verki, væru nú betri kostur,” segir Hjálmar.Í dag starfar Landsbankinn á 16 stöðum í höfuðborginni, en starfsemi bankans mun nánast öll færast undir eitt þak í nýju húsi. Af þessum 16 stöðum eru 12 eignir á besta stað í hjarta borgarinnar. Því vaknar spurningin – hvað verður gert við þessar eignir eftir að Landsbankinn hefur opnað nýjar höfuðstöðvar?„Ég held að hér ætti að vera einhver stofnun, menntastofnun, eða eitthvað slíkt í gamla húsinu. Að öðru leyti munu þeir auðvitað bara væntanlega leita eftir hæstu verðum þegar þar að kemur,” segir Hjálmar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.