Enski boltinn

Ekki búast við að Depay verði eins og Giggs

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Memphis Depay spilar með United næstu árin.
Memphis Depay spilar með United næstu árin. vísir/getty
Stuðningsmenn Manchester United eiga ekki að búast við að liðið sé búið að finna nýjan Ryan Giggs í hollenska vængmanninum Mempis Depay sem það keypti frá PSV Eindhoven í maí.

Þetta segir Pierre van Hooijdonk, fyrrverandi framherji hollenska landsliðsins, í viðtali við ESPNFC. Hann mun leggja upp færri mörk, að hans sögn, en skora fleiri.

Depay verður væntanlega stillt upp á vinstri vængnum á næstu leiktíð, stöðunni sem Ryan Giggs spilaði í tæpa tvo áratugi.

„Hann er ekki eins og Ryan Giggs var. Hann er réttfættur og kemur meira inn á völlinn. Hann mun ekki búa til jafnmikið af mörkum og Giggs gerði, en Memphis mun skora fleiri. Hann er mjög sterkur líkamlega og andlega,“ segir Van Hooijdonk.

„Depay er góður og hann verður bara betri. Hann mun standa sig vel á Englandi, en eins og með aðra unga leikmenn þarf að fá tíma. Hann er leikmaður sem getur búið til eitthvað úr engu. Hann getur skorað mörk og er með góðar spyrnur.“

„Dempay getur skorað af löngu færi og af stuttu færi. Miðað við það sem ég sá af Manchester United á síðustu leiktíð er hann nú þegar nógu góður til að spila fyrir liðið,“ segir Pierre van Hooijdonk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×