Enski boltinn

Bournemouth borgar metfé fyrir góðhjartaðan bakvörð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Nýliðar Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni hafa fest kaup á vinstri bakverðinum Tyrone Mings frá Ipswich Town.

Mings er langdýrasti leikmaður í sögu Bournemouth en talið er að hann kosti félagið átta milljónir punda. Áður hafði félagið mest borgað þrjár milljónir punda fyrir leikmann.

Mings, sem er 22 ára, kostaði Ipswich aðeins 10.000 pund þegar hann var keyptur frá utandeildarliði Chippenham Town árið 2012.

Mings ólst upp hjá Southampton en var látinn fara frá félaginu þegar hann var 16 ára. Aðeins hálfu ári áður en hann fór til Ipswich íhugaði hann að hætta í fótbolta til að einbeita sér að starfi sínu sem húsnæðislánaráðgjafi.

Mings er greinilega með hjartað á réttum stað en hann er duglegur að gefa af sér utan vallar. Hann gaf heimilislausum t.a.m. að borða á jólunum fyrir tveimur árum og í byrjun síðasta tímabils endurgreiddi hann stuðningsmönnum Ipswich treyjur með nafninu hans aftan á eftir að hann skipti um treyjunúmer.

Mings lék 44 leiki með Ipwich á síðasta tímabili en liðið féll úr leik í umspili um sæti í úrvalsdeildinni í vor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×