Innlent

Birgitta vill svör um hin meintu spillingarmál forsætisráðherra

Jakob Bjarnar skrifar
Birgitta Jónsdóttir.
Birgitta Jónsdóttir. Vísir/Valli
Vísir hefur greint frá því að efni fjárkúgunarkröfu systranna Hlínar og Malínar Einarsdætra á hendur Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, tengist viðskiptum hans við Björn Inga Hrafnsson eiganda DV, og þá kaupum á fjölmiðlinum. Björn Ingi sendi frá sér yfirlýsingu nú fyrir stundu, þar sem hann þvertekur fyrir að Sigmundur Davíð eigi hlut í DV.

Birgitta Jónsdóttir, Kapteinn Pírata, mun krefjast svara við því hvernig hugsanlegum tengslum og eignarhaldi forsætisráðherra á fjölmiðlum er háttað. „Mér finnst nauðsynlegt að fá svör við þessu og ætla að leita leiða til að gera það í gegnum stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd eða í fyrirspurnartíma,“ segir Birgitta í samtali við Vísi.

Ef fjölmiðlar hafa einhverju „lögformlegu“ hlutverki að gegna í samfélaginu er það að veita valdhöfum aðhald og sinna þannig eftirlitshlutverki. Sé forsætisráðherra að sýsla með eignarhald á fjölmiðlum á bak við tjöldin gæti það talist trúnaðarbrot við almenning.

Málið hefur vakið mikla athygli sem sýnir sig á samskiptamiðlunum. Þannig skrifar Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur og þjóðfélagsrýnir á Facebook: „En sé sagan sönn er þetta býsna alvarlegt mál og leiðir hugann að Berlusconi: auðmaður í stóli forsætisráðherra fjármagnar kaup á krítískasta fjölmiðli landsins til að þagga niður í þeirri rödd og eignast enn eitt málgagnið.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×