Innlent

"Þessi nefnd hefur ekki verið skipuð svo lengi sem elstu menn muna“

Birgir Olgeirsson skrifar
Páll Halldórsson, formaður samninganefndar BHM, og Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður samtakanna.
Páll Halldórsson, formaður samninganefndar BHM, og Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður samtakanna. Vísir/Vilhelm
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í gær að skipa sérstaka sáttanefnd í kjaradeilu félags hjúkrunarfræðinga og BHM við ríkið. Forsvarsmenn þessara félaga voru boðaðir á fund í velferðarráðuneytinu í morgun þar sem þessi ákvörðun var kynnt.

Ólafur G. Skúlason er formaður félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. „Það var farið gróflega yfir þessa sáttanefnd og þau ákvæði laga sem heimila þessa sáttanefnd. Það hefur lítið reynt á þetta ákvæði og tugir ára síðan slík nefnd var við störf. Við fengum staðfestingu á því að þessi nefnd hefur sömu heimildir og ríkissáttasemjari hefur nema með aðkomu fleirri,“ sagði Ólafur en hann sagði félagið ekki hafa tekið afstöðu til þessara hugmynda.

Heimild til að skipa sáttanefnd er að finna í lögum frá árinu 1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Í lögunum er ekki kveðið á hlutverk nefndarinnar eða hvernig hún er skipuð. Páll Halldórsson, formaður samninganefndar BHM, segir félagið taka afstöðu til málsins þegar það hefur verið sett fram með skýrari hætti. Það sé algjörlega óljóst hvað felist í skipan slíkrar nefndar.

„Þessi nefnd hefur ekki verið skipuð svo lengi sem elstu menn muna,“ sagði Páll í hádegisfréttum Bylgjunnar og sagði BHM vilja fá það með skriflegum hætti hvaða þýðingu það hefur að skipa slíka nefnd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×