Innlent

„Þetta er hvorki sanngjarnt gagnvart mér né börnunum mínum“

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar
Fiskverkakona hjá HB Granda spyr hvernig stjórnarformaður fyrirtækisins sofi á nóttunni. Það má segja að hann hafi fengið það óþvegið í kaffitíma fyrirtækisins, fyrir að hækka laun stjórnarmanna um þriðjung en bjóða verkafólkinu þrjú prósent. Aðalfundur fyrirtækisins samþykkti hækkunina einróma.

Fiskverkafólkið greiðir atkvæði um verkfallsaðgerðir þessa dagana en þær hefjast daginn fyrir fyrsta maí ef verkfallið verður samþykkt. Sesselja Andrésdóttir fiskverkakona var ekki í neinum vafa um að fólk kysi með verkfalli eftir þetta útspil stjórnarinnar. Kristján Loftsson telur ekki koma til greina að draga til baka ákvörðun um tæplega þriggja milljarða arðgreiðslu og þriðjungshækkun á þóknun stjórnarmanna.

Verið að senda okkur fingurinn

Sesselja sagðist vilja spyrja stjórnina hvernig í andskotanum hún gæti sofið á nóttunni, eftir að hafa boðið starfsfólkinu þrjú prósent, en tekið 33 prósent sjálf. „Þetta er  ekki sanngjarnt gagnvart mér og ekki sangjarnt gagnvart börnunum mínum, sagði hún. Hjördís Ágústsdóttir fiskverkakona segir að í raun og veru sé verið að senda starfsfólkinu fingurinn. „Scrooge Loftsson, til hamingju með hækkunina og 33 prósentin,“ segir Jónína Björg Magnúsdóttir söngkona og fiskverkakona: „ Þú átt þau svo sannarlega skilið. Við eigum líka skilið að þau hækki niður stigann í þetta sinn en ekki bara upp eins og venjulega.“

Vilhjálmur Birgisson formaður verkalýðsfélags Akraness segir að HB Grandi hafi skilað 5,7 milljörðum í hagnað í fyrra. Ef fyrirtækið gengi að ítrustu kröfum verkalýðsfélagsins, myndi það kosta fyrirtækið um 4 til 500 milljónir. Hagnaður fyrirtækisins yrði þá á bilinu 5,2 til 53 milljarðar. „Þannig að það yrði nægt svigrúm eftir handa þeim,“ segir Vilhjálmur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×