Enski boltinn

Mourinho: Titilbaráttunni á að vera lokið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jose Mourinho, stjóri Chelsea.
Jose Mourinho, stjóri Chelsea. Vísir/Getty
Jose Mourinho, stjóri Chelsea, segir að liðið eigi að vera með mun fleiri stig en það er með og því ætti engin spenna að ríkja í baráttunni um enska meistaratitilinn.

Chelsea vann í gær nauman sigur á Hull á útivelli, 3-2, og er liðið með sex stiga forystu á toppnum auk þess að eiga leik til góða.

„Titilbaráttunni ætti að vera lokið. Undir venjulegum kringumstæðum ætti Chelsea að vera með átta, tíu eða tólf stigum meira en við erum með. En fótboltinn er óútreiknanlegur og raunin er að við erum með sex stiga forystu sem er besta staðan okkar allt tímabilið,“ sagði Mourinho við enska fjölmiðla.

„Við höfum mest verið með átta stiga forystu en þá voru fleiri leikir eftir. Nú er forystan sex stig og við eigum leik til góða.“

„Ef City nær í öll þau 24 stig sem liðið getur fengið þá er þetta bara spurning um stærðfræði til að sjá hversu mörg stig við þurfum. Ég er nokkuð viss um að okkur takist þetta. Ég hef trú á mínum mönnum.“

Chelsea á eftir að spila gegn Leicester í frestuðum leik úr 27. umferð. Sá leikur fer fram 29. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×