Enski boltinn

Herrera: Hef aldrei séð eftir ákvörðun minni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ander Herrera ásamt Juan Mata.
Ander Herrera ásamt Juan Mata. Vísir/Getty
Miðjumaðurinn Ander Herrera segir að hann hafi aldrei efast um að það hafi verið rétt ákvörðun hjá sér að ganga til liðs við Manchester United í sumar.

Herrera gekk í raðir United frá Athletic Bilbao í sumar fyrir 29 milljónir punda og þó svo að hann hafi staðið sig vel á undirbúningstímabilinu gekk honum illa að festa sig í sessi þegar keppni í ensku úrvalsdeildinni hófst.

Hann hefur þó haldið byrjunarliði sínu í liði United í síðustu sjö leikjum þess í öllum keppnum.

„Manchester United er næstríkasta félag heims og þeir eru sífellt að leita að hæfileikaríkum leikmönnum. Það þurfa allir tíma til að aðlagast,“ sagði Herrera í viðtali við spænska fjölmiðla.

„Nú er ég að spila meira en ég gerði áður en ég vissi þegar ég kom að hingað væri ég kominn til að spila í fimm ár - ekki bara í nokkra mánuði,“ bætti hinn 25 ára Herrera við.

Spánverjinn kemur víða við í viðtalinu og segir að það sé minni stéttaskipting í liðinu eftir að menn eins og Paul Scholes, Ryan Giggs og Rio Ferdinand eru hættir. Þá segir hann að Wayne Rooney sé brandarakallinn í hópnum.

„Rooney er afar opinn og blótar okkur alltaf á spænsku,“ sagði Herrera sem segist halda sig fjarri stjóranum Louis van Gaal þegar hann getur.

„En hann er góður maður með sterka og mikla skapgerð. Hann er hrifinn af aga og trúir ekki á leikmenn sem eru með stórt egó.“

Herrera var einnig spurður hvenær hann hafi síðast grátið. „Síðast? Ég grét næstum því við það að sjá Lionel Messi spila gegn Manchester City. Hann er svo góður. En verð líka auðveldlega meyr.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×