Innlent

Icelandair og Wow Air breyta verklagi vegna flugslyssins í Frakklandi

Birgir Olgeirsson skrifar
Flugfélög hafa ákveðið að yfirfara verkferla sína í kjölfar flugslyssins í Frakklandi.
Flugfélög hafa ákveðið að yfirfara verkferla sína í kjölfar flugslyssins í Frakklandi. Vísir/GVA

Bæði Icelandair og Wow Air ætla að taka upp þá vinnureglu upp í flugi að aldrei séu færri en tveir úr áhöfn í flugstjórnarklefanum. Þessi ákvörðun er tekin í vegna þess harmleiks sem átti sér stað þegar aðstoðarflugmaður Germanwings-vélarinnar brotlenti vélinni viljandi í Ölpunum á þriðjudag.

Flugstjórinn vélarinnar hafði yfirgefið flugstjórnarklefann til að fara á salernið. Þegar hann kom til baka hafði aðstoðarflugmaðurinn læst flugstjórnarklefanum, hægt á vélinni og sett hana í dýfu. Á hljóðupptökum má heyra flugstjórann biðja flugmanninn um að hleypa sér inn en honum er aldrei svarað.

Nú þegar hafa nokkur flugfélög boðað að héðan í frá megi aldrei vera færri en tveir í flugstjórnarklefanum hverju sinni eftir að þetta kom í ljós í dag. Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir fyrirtækið hafa tekið upp þessa vinnureglu og að hún komi til framkvæmda strax.

„Í framhaldi af þessum fréttum af ástæðum flugslyssins í Frakklandi hefur Icelandair ákveðið að taka þessa vinnureglu upp í flugi að aldrei séu færri en tveir úr áhöfninni í flugstjórnarklefanum. Þannig að ef annar flugmaðurinn þarf að fara frá þá komi flugfreyja eða flugþjónn inn í klefann,“ segir Guðjón í samtali við Vísi.

Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi Wow Air, segir fyrirtækið fylgja alþjóðlegum stöðlum og að það sé ekki vinnuregla hjá fyrirtækinu að aldrei megi vera færri en tveir í flugstjórnarklefanum hverju sinni. „En í ljósi þessarar sorglegu fréttar erum við að yfirfæra verkferla og meðal annars mun það fela í sér innleiðingu á þessari reglu,“ segir Svanhvít.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.