Enski boltinn

Henry byrjaður að þjálfa hjá Arsenal

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Thierry Henry og Arsene Wenger þjálfa nú báðir hjá Arsenal.
Thierry Henry og Arsene Wenger þjálfa nú báðir hjá Arsenal. vísir/gety
Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, staðfesti á blaðamannafundi í dag að Thierry Henry, markahæsti leikmaður liðsins í úrvalsdeildinni frá upphafi, væri mættur til starfa hjá félaginu.

Henry, sem lagði skóna á hilluna sem leikmaður NY Red Bulls í Bandaríkjunum í desember, er orðinn þjálfari hjá Arsenal og byrjar á að þjálfa barnaflokka hjá félaginu.

„Thierry Henry er að taka sín fyrstu skref sem þjálfari. Það er gott fyrir ungviðið okkar að fá hann sem þjálfara,“ sagði Arsene Wenger.

„Hann hefur komið hingað einu sinni eða tvisvar. Allir fyrrverandi leikmenn liðsins eru velkomnir aftur til að ná sér í þjálfaragráður. Við erum ánægðir með að fá hann.“

Thierry Henry er 37 ára gamall, en hann spilaði 254 leiki með Arsenal í úrvalsdeildinni frá 1999-2007. Hann skoraði 174 deildarmörk og er sá fimmti markahæsti frá upphafi á eftir Alan Shearer, Andy Cole, Wayne Rooney og Frank Lampard.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×