Lífið

Tilfallandi fávitaháttur

Jakob Bjarnar skrifar
Ólíklegt hlýtur að teljast að Davíð vitni í Pál að þessu sinni í Staksteinasamantekt sinni.
Ólíklegt hlýtur að teljast að Davíð vitni í Pál að þessu sinni í Staksteinasamantekt sinni.
Páll Vilhjálmsson Moggabloggari og kennari, sem hefur verið mjög í hávegum hafður hjá Davíð Oddssyni ritstjóra Morgunblaðsins; hann vitnar reglulega í bloggskrif Páls í pistlum blaðsins og birtir, sparar hvergi stóru orðin á bloggi sínu Tilfallandi athugasemdir þá er honum gremst. Í nýlegu bloggi sínu segir hann að blaðamaður Morgunblaðsins sé fáviti. Ástæða þessara svigurmæla er frétt Moggans þess efnis að árásarmaðurinn í skotárásinni sem gerð var í Kaupmannahöfn um helgina væri Dani. Þetta lagðist afar illa í Pál sem sagði það ekki geta staðist því nafn árásarmannsins er Omar Abdel Hamid El-Hussein.

Þessi ummæli Páls hafa fallið í grýttan jarðveg á samskiptamiðlum og þannig spyr Teitur Atlason bloggari: „Er ekki Páll Vilhjálmsson fávitinn í þessu samhengi. Fáviti sem skilur ekki að Dani geti borið nafn á borð við Omar Abdel Hamid El-Hussein.“

Og Guðrúnu Hálfdánardóttur blaðamanni á mbl.is er ekki skemmt: „Það er gaman að mæta á morgunvaktina á mbl þegar svona fyrirsögn á bloggi mætir manni: „Fáviti á fréttavakt mbl.is“ [...] Jahá svo mörg eru orð míns gamla siðfræðikennara úr fjölmiðlanámi við Háskóla Íslands. Ég ætla ekki að segja neitt meir enda í tísku að höfða meiðyrðamál gegn blaðamönnum hér á landi.“

Í morgun dró svo til frekari tíðinda í þessu sérkennilega máli þegar Páll baðst afsökunar í stuttum pistli undir fyrirsögninni: „Fávitinn ég biðst afsökunar“. Sú staðreynd útaf fyrir sig er frétt því Páli er ekki gefið að biðjast afsökunar eins og sýndi sig í nýlegu meiðyrðamáli, þar sem Páll harðneitaði að bakka. Í afsökunarbeiðninni segir: „Ég bloggaði ég gær um frétt á mbl.is og sagði höfundinn fávita. Orðið vísar til einhvers sem veit fátt og var áður notað klínískt um fólk með greindarvísitölu undir 50.

Í skrifum mínum reyni ég að halda mér við þá reglu að segja aldrei neitt um neinn sem ég ekki væri tilbúinn til að segja viðkomandi augliti til auglitis. Og tilfellið er að ég myndi seint segja einhvern fávita.

Ég bið höfund fréttarinnar afsökunar og vona að hann fyrirgefi mér fávisku mína.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×