Innlent

Nýi varamaðurinn íþróttafræðingur sem sá um rekstur á einkaþotum

Birgir Olgeirsson skrifar
Gréta Björg Egilsdóttir.
Gréta Björg Egilsdóttir. Vísir
Sjaldan hefur skipan varamanns í mannréttindaráð fengið jafn mikla athygli og þegar borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina ákváðu að skipa Gústaf Adolf Níelsson sem varamann. Sú skipan var dregin til baka og var Gréta Björg Egilsdóttir, fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, kjörin í hans stað í nótt.

Gréta Björg er fertugur íþróttafræðingur úr Skerjafirðinum sem hefur að togast á milli líkamsræktargeirans og fluggeirans í gegnum starfsævina. Inni á kosningavef Ríkisútvarpsins, vegna sveitarstjórnarkosninganna í fyrra, kemur fram að Gréta Björg kláraði þolfimikennararéttindi árið 1997 og vann í stuttan tíma við kennslu og í afgreiðslu hjá Stúdíói Ágústu og Hrafns þegar það var og hét.

Að loknu námi í ferðamálafræði hjá Ferðaskóla Flugleiða hóf hún störf sem flugfreyja hjá Icelandair og starfaði þar til ársins 2006 en þá hófu hún og eiginmaður hennar rekstur á fyrirtæki sem sá um rekstur á einkaþotum og starfaði hún bæði um borð sem og á skrifstofu fyrirtækisins.

Hún útskrifaðist sem íþróttafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík árið 2012 og hefur undanfarin tvö ár starfað sem íþróttafræðingur og þjónustustjóri hjá heilsuræktarfyrirtækinu Heilsuborg.

Nokkrir borgarfulltrúar lýstu því yfir nótt að þeir myndu sitja hjá við atkvæðagreiðsluna og sagði Sigurður Björn Blöndal það hafa verið ábyrgðarleysi af hálfu fulltrúa Framsóknar- og flugvallarvina að skipa Gústaf Níelsson sem varamann í mannréttindaráði. Sagði Sigurður það vera vegna öfgafullra skoðana hans og taldi hann flokkinn „daðra við öfgastefnu og rasisma“.

Gréta Björg lýsti því yfir á fundinum að hún tæki ekki undir skoðanir Gústafs.


Tengdar fréttir

Skipan Gústafs dregin til baka

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina hafa ákveðið að draga til baka skipan varafulltrúa síns í mannréttindaráði Reykjavíkurborgar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá flokknum.

Situr hjá vegna „öfgastefnu“ Framsóknar

Formaður borgarráðs gagnrýndi fulltrúa Framsóknar- og flugvallarvina harðlega og ætlar að sitja hjá í atkvæðagreiðslu um skipan varamanns í mannréttindaráð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×