Innlent

Búa við hótanir frá nágrönnum sínum

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar
Nágrannar íbúanna í bakhúsinu á Hverfisgötu 88 hafa þurft að búa við hótanir og stöðugt ónæði mánuðum saman. Skipt hefur verið um allar skrár í húsinu en íbúarnir finna alltaf leið til að komast inn aftur. Húsið komst í fyrst í fréttirnar eftir morðtilraun í nóvember.

Samtökin Veraldarvinir, sem eru sjálfboðaliðasamtök, hafa verið í nokkur ár við Hverfisgötu 88 en þegar þau hófu starfsemi höfðu þau núverandi húsnæði sitt til umráða auk gamalla húsa á baklóðinni. Eigandinn vildi síðan hækka leiguna umtalsvert og lét samtökin bakhúsin af hendi og þangað fluttu nýir leigjendur sem hafa vægast sagt haldið nágrönnunum í heljargreipum.

Antonio Perez starfsmaður vildarvina segir að leigusalinn hafi sjálfsagt ekki áttað sig á því að tíu til fimmtán manns myndu flytja inn með þeim sem undirritaði leigusamninginn. Það hafi þó gerst og stöðugur straumur sé af fólki í annarlegu ástandi um baklóðina allan daginn. Hann segir að íbúar hússins hafi reynt að brjótast inn til í húsnæði samtakanna en þar dvelja jafnan um 2o sjálfboðaliðar, þeir hafi einnig haft í frammi hótanir og ógnandi tilburði. Lögreglan hafi ráðlagt þeim að forðast þá enda séu þetta hættulegir menn.

Einn er í gæsluvarðhaldi, grunaður um að hafa reynt að ráða öðrum bana í bakhúsinu. Sá var stunginn í hjartað í nóvember en bjargaðist fyrir óvanalegt snarræði lækna. Þá lést maður eftir heilablæðingu síðastliðinn föstudag. Rannsókn stendur yfir en ekki er vitað hvort dauðsfallið var af mannavöldum

Eignarhaldsfélagið Rauðsvík leigir núverandi íbúum hússins en leigusamningurinn rann ú fyrsta nóvember. Rauðsvík leigir út tugi íbúða á svokölluðum Barónsreit en talsmaðurinn segir að flestir leigjendur félagsins séu rólyndisfólk.

Magnús Einarsson bílstjóri hjá veraldarvinum segist hafa verið fenginn til að skipta um skrár og negla fyrir gluggana en íbúarnir snúi samt alltaf aftur. Hann segir ástandið innandyra ekki skárra en utanhúss en þar sé viðbjóðslegt um að litast.

Talsmaður félagsins segir að leigusamningurinn á baklóðinni hafi verið arfur frá fyrri eigendum félagsins. Beðið er eftir úrskurði um útburð frá sýslumanni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×