Leigusamningurinn gildir til 2030 og er því til 15 ára. Samkvæmt Birni er leiguverðið 4,9 milljónir króna á mánuði, sem nemur 882 milljónum króna á samningstímanum. Borgin fær húsið afhent 1. maí næstkomandi, eða fyrr ef framkvæmdir við breytingar á því ganga hraðar fyrir sig.

Á fundinum var einnig samþykkt forsögn að hugmyndasamkeppni um lóðina í kringum útvarpshúsið, Efstaleiti 1. „Þarna er verið að stefna á að endurskoða uppbyggingarmöguleika á þessari lóð, og í raun samliggjandi lóðum á þessum reit. Endurskipulagning verði með þéttingu og gæði byggðar leiðarljósi,“ segir Björn um samkeppnina.
Þá hafa borgin og RÚV gert með sér samkomulag um að borgin taki yfir 20 prósent af samþykktu byggingarmagni eða íbúðareiningum til uppbyggingar leigumarkaðar. „Þarna er miðað við að á þessu svæði verði blandað búsetuform á þeim hluta,“ segir hann. Ekki er greitt fyrir þessi réttindi sérstaklega, samkvæmt Birni.
Uppfært klukkan 15.25. Í upphaflegu fréttinni var sagt að leigusamningurinn væri til 30 ára en hið rétta er að hann er til 15 ára, eins og lesa mátti úr dagsetningum sem fram komu í fréttinni.