Innlent

Saurlífi lokað en myndum áfram deilt

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Hægt er að deila myndum og myndböndum með öðrum notendum í gegnum Snapchat. Forritið hefur verið notað til að deila nektarmyndum og myndum af eiturlyfjum.
Hægt er að deila myndum og myndböndum með öðrum notendum í gegnum Snapchat. Forritið hefur verið notað til að deila nektarmyndum og myndum af eiturlyfjum. Vísir/Getty Images
Snapchat-aðganginum Saurlífi hefur verið lokað en nýr hefur þegar sprottið upp í staðinn. Í gegnum aðganginn hefur fólk getað deilt hvers kyns saurlífi og ólifnaði og geta þeir sem fylgt hafa aðganginum á Snapchat skoðað þessar myndir eða myndskeið í allt að sólarhring eftir að þau birtast. Meðal þess sem deilt hefur verið í gegnum aðganginn eru nektarmyndir, klám og myndir af fíkniefnum.

Vísir fjallaði á föstudag um að aðstandendur unglinga í Laugardals- og Háaleitishverfum hafi nýlega fengið bréf frá skólum í hverfunum þar sem þeir eru hvattir til að ræða við unglinga sína um það efni sem birtist á Snapchat-aðganginum Saurlífi. Fljótlega eftir að fréttin birtist var aðganginum lokað.

Óljóst er hver lokaði aðganginum en fljótlega eftir að honum var lokað var annar samskonar aðgangur opnaður. Samkvæmt heimildum fréttastofu auglýstu stjórnendur aðgangsins nafn nýs aðgangs sem opnaður yrði ef sá fyrri yrði gerður óvirkur. Því virðist vera sem stjórnendurnir hafi verið undirbúnir undir það að Snapchat-aðganginum yrði lokað.

Snapchat er snjallsímaforrit þar sem hægt er að deila myndum og myndböndum með öðrum notendum. Skilaboðin eru aðeins aðgengileg í tiltekin tíma. Tvær mismunandi tegundir eru af skilaboðum í gegnum Snapchat; annarsvegar skilaboð send á einstakling sem hægt er að horfa á einu sinni og hinsvegar skilaboð sem eru opin öllum á vinalista viðkomandi notenda í sólarhring. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×