Innlent

Tjá sig ekki um vanrækslu á hrossunum við Akrafjall

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Vanrækslan var slík að hrossin áttu erfitt með gang.
Vanrækslan var slík að hrossin áttu erfitt með gang. vísir/sigurjón guðmundsson
Ekki fást upplýsingar um hvort mál er varðar vanhirðu á hrossum við Akrafjall sé í skoðun hjá Matvælastofnun. Fræðslustjóri hjá MAST segir að um sé að ræða einkamál og að megi ekki veita upplýsingar um einstök dýravelferðarmál. 

Vísir greindi frá því á dögunum að hófar nokkurra hrossa austan við Akrafjall væru óklipptir og afar illa farnir. Vanrækslan var slík að hrossin áttu erfitt með gang. Það var áhugaljósmyndarinn Sigurjón Guðmundsson sem vakti athygli á málinu, en hann var í göngu með eiginkonu sinni þegar hann sá hrossin. Hann tilkynnti málið samstundis til Matvælastofnunar.

Hófar eins hestsins.vísir/sigurjón guðmundsson
Hótað af eigendum hrossanna

„Ég fékk skilaboð frá þeim [MAST] að ég ætti að hafa aftur samband eftir mánuð ef ekkert breyttist. Svörin voru eiginlega á þá leið að það væri mitt að fylgjast með hvort hugsað yrði um hrossin,“ segir Sigurjón í samtali við Vísi. „Ég er nú búinn að líta þarna við og sá að hestarnir eru farnir inn í hús. Þannig að ég veit ekki hver staðan er í dag,“ bætir hann við. Fræðslustjóri hjá MAST staðfesti að mál er tengist vanhirðu hrossa sé á þeirra borði, en hvort um þetta tiltekna mál sé að ræða vildi hann ekki staðfesta.

Þá segir Sigurjón eigendur hestanna hafa brugðist harkalega við fréttaflutningi um málið. „Eigendurnir hringdu snarvitlausir í mig og ætluðu að kæra mig fyrir að hafa farið inn á einkalóð. Það gerði ég nú samt ekki. Ég er með það góða myndavél að ég þurfti ekki að fara inn á lóðina til að ná þessum ljósmyndum,“ segir hann.

Þennan hest þurfti að aflífa á síðasta ári vegna vanhirðu.MYND/HEIMIR ÞÓR ÍVARSSON
Í reglugerð um velferð hrossa segir að umráðamanni sé skylt að fylgjast með heilbrigði hrossa í hans umsjá og kalla til dýralækni ef þarf. Hann skuli tryggja að hross líði ekki fyrir vanhirðu, meðal annars með því að verja þau ytri óværu og hirða hófa.

Í mars á síðasta ári var greint frá sambærilegu máli. Um var að ræða tvö hross á Mýrum í Borgarfirði og voru hófar þeirra afskaplega illa farnir. Svo illa farnir að aflífa þurfti hrossin.



Uppfært:

Svarið sem Sigurjón fékk frá Matvælastofnun í kjölfar tilkynningarinnar var sjálfvirkt svar frá MAST en þar segir að ef fólk er ekki sátt við úrlausnina sé það hvatt til að hafa samband aftur innan mánaðar.


Tengdar fréttir

„Þetta er til háborinnar skammar“

Sigurjón Guðmundsson telur hófa illa farna á að minnsta kosti fjórum hestum sem standa úti austan Akrafjalls. Svo virðist sem hófarnir hafi ekki verið klipptir í lengri tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×