Innlent

Bað fjórum sinnum um nýjar tölur og vann 22 milljónir

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hinn vinningshafinn ætlar að bjóða vinum sínum í frí.
Hinn vinningshafinn ætlar að bjóða vinum sínum í frí. Vísir
Þriggja barna móðir sem vann 22 milljónir króna í Lottó-úrdrættinum um liðna helgi keypti miðann í sjálfsala í Krónunni. Hún valdi tíu raða sjálfval en bað fjórum sinnum um nýjar tölur þar sem henni leist aldrei nógu vel á tölurnar.

Konan segir í samtali við Íslenska Getspá að hún sé í fjórum vinnum til að eiga fyrir útgjöldum en þau hjónin eiga þrjú börn. Lottómiðanum kom hún fyrir í Machintosh-dollu uppi á skáp.

Konan segist fyrsta mál á dagskrá að borga upp bílalánið og svo verði farið í langþráða utanlandsferð. Að öðru leyti ætli fjölskyldan að halda sig við það sem ákveðið var í janúar. Að borða það sem til er í frystinu.

Býður vinum sínum í frí

Tveir unnu fyrsta vinninginn um liðna helgi en karlmaður, sem áskrifandi, er einnig orðinn 22 milljónum krónum ríkari. Sá segist hafa átt erfitt með að halda á kaffibollanum þegar hann fékk símtalið frá Íslenskri getspá. Hann hafði tekið eftir því að tölurnar voru réttar en engu að síður efast um vinninginn þar til síminn hringdi.

Í vikunni á undan hafði hann sagt við vinnufélaga að ynni hann í einhverjum af lottóleikjunum, þá myndi hann bjóða þeim með sér í frí. Hann sagðist að sjálfsögðu ætla að standa við orð sín og svo langar hann að endurnýja húsnæðið.

Uppfært klukkan 22:47

Í fréttinni stóð að fjölskyldan væri í fjárhagslegu basli. Hið rétta er að foreldrarnir vinna afar mikið til að geta rekið stórt heimili og börnin geta verið í tómstundastarfi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×