Innlent

Lögreglan á Selfossi, Hvolsvelli og Höfn ekki lengur til

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Kjartan Þorkelsson, lögreglustjóri nýja embættisins.
Kjartan Þorkelsson, lögreglustjóri nýja embættisins. Mynd/MHH
Embætti lögreglunnar í Árnessýslu og lögreglunnar á Hvolsvelli var lagt niður um miðnætti þegar Lögreglan á Suðurlandi varð til með sameiningu þessara tveggja lögregluliða, auk lögreglunnar á Höfn í Hornafirði, sem áður tilheyrði embætti lögreglustjórans á Eskifirði.

„Stækkun og fækkun embætta á að leiða til styrkingar lögregluliða og þar með að auka skilvirkni í löggæslu.   Íbúar hins nýja umdæmis munu í sjálfu sér ekki finna fyrir miklum breytingum í fyrstu en þó stækkar það svæði sem hefur aðgang að sólarhringsvakt lögreglu. Af hálfu embættisins verður lögð áhersla á að eiga góð samskipti við íbúa og sveitastjórnir í umdæminu um leið og þeim er öllum óskað velfarnaðar á nýju ári“, segir Kjartan Þorkelsson, lögreglustjóri nýja embættisins.

Oddur Árnason verður yfirlögregluþjónn embættisins, Sveinn K Rúnarsson verður yfirlögregluþjónn almennrar deildar og Þorgrímur Óli Sigurðsson verður aðstoðaryfirlögregluþjónn rannsóknardeildar.  Gunnar Örn Jónsson verður yfirmaður ákærusviðs, sem staðsett verður á Selfossi, og einnig staðgengill lögreglustjóra.  

Umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi mun verða eitt það stærsta á landinu í ferkílómetrum eða rúmir 24.000 km2 en það mun ná frá Seljubótarnefi í Krísuvíkurbjargi í vestri að Hvalnesskriðum í austri og með vatnaskilum á Kili og inn að Nýadal á Sprengisandsleið í norðri.   Íbúar í nýju umdæmi verða um 22 þúsund. Lögreglumenn í umdæminu verða 37 auk héraðslögreglumanna. 6 aðrir starfsmenn munu heyra undir skrifstofu lögreglustjóra og verða þeir staðsettir á Hvolsvelli og á Selfossi.

Lögreglustöðvar umdæmisins munu áfram  verða á Selfossi, Hvolsvelli, Vík, Kirkjubæjarklaustri og á Höfn.   Rannsóknardeild verður staðsett á Selfossi en hún hefur frá árinu 2007 haft með höndum rannsóknir alvarlegra brota í umdæmum núverandi lögreglustjóra á Selfossi og á Hvolsvelli og mun hún einbeita sér að þeim brotum en almennir lögreglumenn sinna áfram öðrum rannsóknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×