Lögreglan handtók karlmann á þrítugsaldri á innbrotsstað í Suðurbæjarlaug í Hafnarfirði um klukkan hálf átta í gærkvöldi. Hann var þar í mestu makindum í gufubaði þegar laganna verðir komu að honum. Ekki kemur fram hvort hann var undir áhrifum áfengis eða fíkniefna, eða hvort hann hafi ætlað að stela einhverju í leiðinni.
Aðalsteinn Hrafnkelsson, forstöðumaður laugarinnar, segir í samtali við Vísi að málinu sé lokið og engir eftirmálar verði af því. Það komi fyrir að fólk stelist í sundlaugina utan auglýsts opnunartíma en það sé þó ekki algengt. Ekki hafi verið brotist inn í húsið sjálft heldur sé innangengt í gufuna frá útisvæðinu.
Síðar um kvöldið var tilkynnt um eignaspjöll á félagsmiðstöð í Grafarvogi. Þar hafði flugeldi verið skotið á rúðu, sem brotnaði, en eldur náði ekki að kvikna þar innandyra.
Um svipað leyti var tilkynnt um eignaspjöll í miðborginni, þar sem rúður höfðu verið brotnar í kjallaragluggum í tveimur húsum. Lögregla telur að rúðunum hafi verið sparkað inn, en gerandinn er ófundinn.
Braust inn í sundlaug og fór í gufubað
