Innlent

Skutu flugeldum í átt að konu og dætrum í Garðabæ

Atli Ísleifsson skrifar
Atvikið átti sér stað í Garðabæ.
Atvikið átti sér stað í Garðabæ. Vísir/Ernir
Piltar skutu flugeldum í átt að konu og dætrum hennar í Garðabæ í gærkvöldi eftir að hún hafði gert athugasemd við að þeir væru að kveikja í rusli skammt frá þeim stað sem hún hafði verið að byggja snjóhús með dætrum sínum.

Í dagbók lögreglu segir að flugeldarnir hafi meðal annars hafnað í húsi og grindverki þar rétt hjá. „Lögðu þeir svo á flótta. Málið er litið alvarlegum augum enda ljóst að piltarnir voru að setja móðurina og dætur hennar í mikla hættu með þessu háttalagi,“ segir í dagbókinni.

Um klukkan 22 í gærkvöldi var tilkynnt um pilta sem voru að reyna að kveikja í rusli við skóla í hverfi 108 í Reykjavík. „Piltarnir voru á bak og burt þegar lögreglu bar að en þeim hafði ekki tekist að kveikja í. Ljóst er að mikil hætta getur skapast af svona háttalagi.“

Um klukkan 17 óskaði ökumaður fólksbifreiðar eftir aðstoð lögreglu þar sem hann hafði misst stjórn á bifreið sinni í hverfi 220. „Sat bifreiðin föst á steini sem afmarkar akbrautina og náði ökumaðurinn ekki að losa bifreiðina. Lögreglumenn sem komu á vettvang náðu svo að losa bifreiðina með handafli.“

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×