Innlent

Fundað fram á nótt í Karphúsinu

Atli Ísleifsson skrifar
Fundað verður eitthvað fram á nótt.
Fundað verður eitthvað fram á nótt. Vísir/Ernir
Samningafundur samninganefndar ríkisins og Læknafélags Íslands stendur enn yfir í Karphúsinu og er líklegt að fundurinn muni standa eitthvað fram á nótt.

Sigurveig Pétursdóttir, formaður samninganefndar Læknafélags Íslands, sagði við blaðamenn klukkan sex í kvöld að samningaviðræður þokuðust, þó að allar líkur væru á því að næsta verkfallslota lækna hæfist á miðnætti.

Læknar á aðgerða- og flæðisviði Landspítalans leggja niður störf á miðnætti, verði ekki búið að semja fyrir þann tíma. Þeim sviðum tilheyra meðal annars bráðamóttaka, gjörgæsla og skurðdeildir. Þá leggja læknar á ýmsum stofnunum einnig niður störf til að mynda hjá Landlæknisembættinu og Greiningarstöð ríkisins.

Sigurveig sagði aðspurð lækna hafa gefið mikið eftir í samningum við ríkið en vildi ekki greina frá því hvort eftirgjöfin hafi verið meiri í dag en aðra daga við samningaborðið.

Verkfallsaðgerðirnar verða í gangi næstu tólf vikurnar ef ekki semst. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×