Innlent

Elín G. Ólafsdóttir látin

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Elín G. Ólafsdóttir.
Elín G. Ólafsdóttir. Vísir/GVA
Elín G. Ólafsdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi og kennari, lést á Landspítalanum 2. janúar, 81 árs að aldri.

Elín fæddist í Reykjavík 28. nóvember 1933. Hún var einn af stofnendum Kvennaframboðsins og sat í borgarstjórn fyrir Kvennalistann í sex ár. Elín var um árabil í forystusveit kennarasamtakanna og sinnti þar mörgum trúnaðarstörfum.

Elín var kennari og skólastjórnandi við Langholtsskóla í Reykjavík. Hún gaf út bókina Nemandinn í nærmynd og var ein af höfundum fræðsluefnisins Upp úr hjólförunum, einu fyrsta námsefni um jafnréttisfræðslu hér á landi.

Elínu voru veitt Íslensku menntaverðlaunin af forseta Íslands árið 2007 fyrir merkt ævistarf kennara og stefnumótun og frumkvöðlastarf í fræðslumálum hér á landi.




Foreldrar Elínar voru Ólafur Hafsteinn Einarsson kennari og þýðandi og Gréta Sigurborg Guðjónsdóttir verslunarmaður. Elín var gift Matthíasi Haraldssyni kennara og skólastjóra en hann er látinn. Þau Matthías eignuðust sex börn en næst elsta barn þeirra hjóna Ólafur Már lést árið 2003. Fimm barna þeirra sem eru á lífi í dag eru Valgerður, Sigurborg, Haraldur, Brynja Dagmar og Ása Björk. Öll börn þeirra hjóna vinna sem kennarar og skólastjórnendur nema Valgerður sem vinnur sem fjölmiðlakona. Elín lætur einnig eftir sig níu barnabörn og þrjú barnabarnabörn.

Jarðarför Elínar verður gerð frá Dómkirkjunni þann 20. janúar kl.15.00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×