Innlent

Hleypur frá Keflavík til Hofsóss eftir mislukkaða spá

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sigvaldi ætlar að standa við stóru orðin þótt hann reikni nú frekar með að ganga til Hofsóss en hlaupa.
Sigvaldi ætlar að standa við stóru orðin þótt hann reikni nú frekar með að ganga til Hofsóss en hlaupa. Vísir
Sigvaldi Arnar Lárusson, varðstjóri hjá lögreglunni á Suðurnesjum, brá sér í gervi Nostradamusar í aðdraganda kosningarinnar um Íþróttamann ársins. Klukkustund áður en kunngjört var að Jón Arnór Stefánsson varð fyrir valinu í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna hét Sigvaldi því að hlaupa til Hofsóss myndi spá hans ekki rætast.

Sigvaldi spáði því að Gylfi Þór Sigurðsson yrði íþróttamaður ársins, karlalandsliðið í fótbolta lið ársins og þjálfari Stjörnunnar í karlaknattspyrnu þjálfari ársins.

„Hafi ég rangt fyrir mér skal ég hlaupa til Hofsóss næsta sumar“

Reyndar hafði Sigvaldi rétt fyrir sér í flokknum þjálfari ársins því Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, varð hlutskarpastur í kjörinu. Hins vegar var Jón Arnór sem fyrr kjörinn íþróttamaður ársins og karlalandsliðið í körfubolta lið ársins.

Getur aldrei haldið kjafti

Víkufréttir greindu fyrst frá málinu og segir Sigvaldi í samtali við miðilinn að ekki hafi verið mikil meining á bakvið heitið til að byrja með.

„Ég get aldrei hlaupið þetta en ætla að reyna að koma mér á tveimur jafnfljótum bæði með göngu og hlaupum,“ segir Sigvaldi í samtali við VF.

Hann segir líklega ágætt að gera eitthvað gott úr þessu „fyrst hann geti aldrei haldið kjafti“.

Lífleg umræða hefur skapast um málið á Facebook-vegg Sigvalda þar sem hann er byrjaður að útskýra hvernig hann ætli að skipuleggja ferð sína. Fyrsti leggur verður frá Keflavík í Bauhaus, þaðan í Borgarnes, Blönduós, Sauðarkrók og loks Hofsós. Brottför verði í júní eða júlí.

Sigvaldi ætlar að nýta ferðina til að safna fyrir góðum málstað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×