Innlent

Launahæsti bæjarstjóri landsins fær nýjan ellefu milljóna króna bíl

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ritari bæjarstjóra hafði ekki upplýsingar um hvaða bíl Gunnar Einarsson hefði til umráða sem stendur.
Ritari bæjarstjóra hafði ekki upplýsingar um hvaða bíl Gunnar Einarsson hefði til umráða sem stendur. Vísir
Bæjarráð Garðabæjar samþykkti á fundi sínum í gær tillögu um að keyptur yrði nýr bíll fyrir bæjarstjórann Gunnar Einarsson. Er reiknað með því að ellefu milljónum króna verði varið í kaup á nýja bílnum. Þetta kemur fram í fundargerð ráðsins sem aðgengileg er á vef Garðabæjar.

Í greinargerð sem Steinþór Einarsson, fulltrúi S-lista lagði fram á fundi bæjarráðs þann 4. desember síðastliðinn, kom fram að í heimsóknum bæjarfulltrúa í skóla í Garðabæ hefði komið fram að bæjarbifreiðar væru orðnar mjög illa farnar. Kallað var eftir yfirliti yfir aldur og ástand þessara bifreiða. Ástandslýsingar gæfu til kynna að verja þurfi talsverðu fjármagni til endurnýjunar á bifreiðum bæjarins á næsta ári.

31,5 milljónir króna í bílakaup

Á fundinum í gær var svo samþykkt, auk þess að verja ellefu milljónum í nýjan bíl fyrir Gunnar, að kaupa nýja gámabifreið á tólf milljónir, bifreið fyrir vatnsveitu á sex milljónir, bifreið fyrir þjónustumiðstöð á sex milljónir og loks sláttuvagn og snjótönn fyrir sjö og hálfa milljón króna.

Gunnar Einarsson var á fundi þegar reynt var að ná af honum tali í morgun. Aðspurð sagði ritarinn Ragnheiður Stefánsdóttir ekki vera meðvituð um hvaða bíl bæjarstjórinn hefði til umráða nú, þ.e. þann sem til stendur að skipta út fyrir nýjan.

Fram kom í fréttum Stöðvar 2 í ágúst að Gunnar væri launahæsti bæjarstjóri landsins með 1,8 milljónir króna í laun á mánuði. Til samanburðar eru laun Dags B. Eggertssonar borgarstjóra 1,3 milljónir króna.


Tengdar fréttir

Gunnar fær hálfri milljón meira en borgarstjóri

Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar eru launahæsti bæjarstjóri landsins með 1,8 milljón króna í mánaðarlaun. Hann er hálfri milljón króna launahærri á mánuði en borgarstjóri.

Gunnar Einarsson verður áfram bæjarstjóri

„Það er greinilegt að meirihluti Garðbæinga var ánægður með störf okkar og við erum þakklát fyrir það. Við ætlum því bara að halda áfram okkar góða starfi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×