Enski boltinn

Lampard þreyttur á lygunum: Fer til New York í sumar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Frank Lampard fer til New York.
Frank Lampard fer til New York. vísir/getty
Enski knattspyrnumaðurinn Frank Lampard segist vera orðinn þreyttur á „lygunum og ruglinu“ í kringum stöðu hans hjá bandaríska MLS-liðinu New York City FC. Lampard samdi við liðið síðasta sumar en var svo lánaður til Manchester City sem á New York-liðið.

Á gamlársdag tilkynnti City að Lampard yrði áfram hjá liðinu en færi ekki til New York í janúar eins og fyrst var ætlað.

Þetta vakti upp reiði hjá stuðningsmönnum liðsins og hefur ríkt mikil óvissa um hvort Lampard væri yfir höfuð á leið til New York-liðsins sem spilar sitt fyrsta tímabil í MLS-deildinni í ár.

„Ég vil koma minni stöðu algjörlega á hreint því ég hef lesið mikið af lygum og rugli undanfarna daga,“ segir Lampard í yfirlýsingu sem hann gaf út í kvöld.

„Þegar ég var leystur undan samningi hjá Chelsea síðasta sumar samþykkti ég að spila fyrir NYCFC í tvö ár frá og með 1. janúar. Síðan var mér boðið að æfa með og vera hluti af leikmannahópi Man City til að vera í sem bestu formi þegar ég færi til Bandaríkjanna.“

„Manchester City framlengdi lánstímann og nú mun ferill minn hjá NYCFC hefjast eftir yfirstandandi leiktíð í ensku úrvalsdeildinni. Ég er mjög spenntur fyrir því að mæta til New York,“ segir Frank Lampard.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×