Íslenski boltinn

Milljónum rignir yfir íslensk lið í Evrópu í sumar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sigurmark Ólafs Karls Finnssonar gegn FH tryggir Stjörnunni a.m.k. 81 milljón.
Sigurmark Ólafs Karls Finnssonar gegn FH tryggir Stjörnunni a.m.k. 81 milljón. vísir/Andri marinó
Liðin fjögur í Pepsi-deild karla í fótbolta sem nældu sér í Evrópusæti á síðustu leiktíð þurfa að fara að búa til pláss á bankareikningnum fyrir milljónirnar sem mun rigna yfir þau í sumar.

Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, í samstarfi við samband félagsliða í álfunni, ECA, stóð að verulegri hækkun á verðlaunafé í Meistaradeildinni og Evrópudeildinni, jafnt í aðalkeppnunum sem forkeppnunum. Hækkunin í Evrópudeildinni er veruleg og er bilið nú minna á milli hennar og Meistaradeildarinnar. Í heildina er hækkunin í Evrópudeildinni 65 prósent.

Íslandsmeistarar Stjörnunnar tvöfalda verðlaunaféð sem þeir fengu í Evrópudeildinni í fyrra bara með því að mæta til leiks í Meistaradeildinni. Stjarnan háði fjögur einvígi í Evrópudeildinni á síðustu leiktíð og fékk fyrir það í heildina 530 þúsund evrur eða sem nemur 78 milljónum króna á núvirði.

Stjarnan fær 300 þúsund evrur (45 milljónir króna) fyrir komandi einvígi sitt í annarri umferð forkeppni Meistaradeildarinnar auk þeirra 250 þúsund evra sem öll lið fá sem komast ekki í riðlakeppnina. Það gerir í heildina 550 þúsund evrur eða 81 milljón króna sem Stjarnan fær þótt hún tapi fyrsta einvíginu.

Bikarmeistarar KR, FH og Víkingur fara í fyrstu umferð forkeppni Evrópudeildarinnar og fá fyrir það miklu meira en áður. Í fyrra fengu liðin í fyrstu umferðinni 120 þúsund evrur eða 18 milljónir króna og 130 þúsund evrur fyrir umferðina á eftir því.

Nú fá þessi lið 200 þúsund evrur fyrir leikinn í fyrstu umferðinni en það gera 30 milljónir króna. Komist liðin áfram fá þau 210 þúsund til viðbótar og 220 þúsund komist þau jafnlangt og Stjarnan í fyrra. Þá innbyrða liðin 630 þúsund evrur eða 93 milljónir króna. Sextíu milljónir fá liðin vinni þau eitt einvígi en falli svo úr leik í annarri umferðinni sem er ekki óalgengt hjá íslenskum liðum.

Komist eitthvert lið alla leið í riðlakeppni Evrópudeildarinnar, annaðhvort Stjarnan með því að vinna tvö einvígi í meistaradeildinni eða hin þrjú með því að vinna fjóra leiki í forkeppni Evrópudeildarinnar, fara ævintýralegar upphæðir að streyma inn.

Öll þau félög sem komust í riðlakeppni Evrópudeildarinnar fá að minnsta kosti 2,4 milljónir evra eða sem nemur 345 milljónum króna. Við það bætast svo verulegar upphæðir fyrir stigasöfnun.

Það er morgunljóst að framvegis verða þau lið sem komast í Evrópukeppni mun betur stæð en áður og verður baráttan um efstu sætin enn mikilvægari sem og bikarkeppnin, en bikarmeistaratitill er öruggt sæti í forkeppni Evrópudeildarinnar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×