Innlent

„Stórkostlega þokkalegt“ að byrja í 6 ára bekk

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
1600 börn hófu nám í 6 ára bekkjum grunnskólanna í gær. Kennari í Ísaksskóla segir fyrsta skóladaginn einkennast af tilhlökkun, umræðu um sumarfríið og óþreyju eftir því að hefja námið.

Ísabella, 6 ára, segist mest hlakka til að læra spænsku í skólanum. Þá ætlar hún líka að læra stærðfræði.

 

„Það er aðallega bara leikur og gleði svona fyrsta daginn, allavega hér,“ segir Þóra Elísabet Kjeld, kennari í Ísaksskóla.

En hvað brennur mest á nemendum?

„Ja, það er nú það... Hvort þau megi ekki bara byrja að læra strax? Þeim finnst þetta dálítið slór fyrsta daginn,“ segir Þóra.

Emil Björn, sem er að byrja í 1. bekk, segir að þau læri lítið fyrsta daginn. Hann vill endilega læra meira. Úlfi, sem einnig var að byrja í 1. bekk, finnst ágætt að vera byrjaður í skólanum.

„En sko, mér finnst miklu ágætara að vera bara heima, vera í sumarfríi. Mér finnst það aðeins ágætara.“

En alveg þokkalegt að vera í skólanum líka?

„Jú, jú, það er líka mjög þokkalegt. Það er alveg stórkostlega þokkalegt.“

Innslag úr fréttum Stöðvar 2 um skólabyrjun má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×