Innlent

Tveir hópar sjúklinga fá stinningarlyfin niðurgreidd

ingibjörg bára sveinsdóttir skrifar
Reglulega er þrýst á um að niðurgreiða eigi stinningarlyf fyrir fleiri hópa.
Reglulega er þrýst á um að niðurgreiða eigi stinningarlyf fyrir fleiri hópa. fréttablaðið/valli
Sjúkratryggingar Íslands taka eingöngu þátt í greiðslu á stinningarlyfjum fyrir tvo sjúklingahópa, það er fyrir einstaklinga með lungnaháþrýsting og Raynauds-sjúkdóm sem er staðbundin truflun á blóðflæði.

Þeir sem glíma við risvandamál í kjölfar slyss eða aðgerðar fá ákveðin rislyf ekki niðurgreidd, að sögn Guðrúnar I. Gylfadóttur, deildarstjóra lyfjadeildar hjá Sjúkratryggingum Íslands.

Í grein í Fréttablaðinu í síðustu viku kvaðst Hannes Ívarsson hafa átt við risvandamál að stríða í kjölfar aðgerðar vegna blöðruhálskirtilskrabbameins. Hann sagði mánaðarskammt af stinningarlyfjum sem virka kosta 20 til 40 þúsund krónur. Umsókn hans um niðurgreiðslu á lyfjunum var synjað.

„Það hefur reglulega verið þrýst á um að niðurgreiða eigi stinningarlyf fyrir fleiri hópa. Við sendum þess vegna erindi til lyfjagreiðslunefndar um að þetta yrði skoðað aftur. Þetta fór fyrir nefndina sem skoðaði reglur um greiðsluþátttöku annars staðar á Norðurlöndum. Ekki þótti ástæða til breytinga,“ greinir Guðrún frá.

Að sögn Guðrúnar mun lyfjagreiðslunefnd taka ákvörðun um einstaklingsbundna greiðsluþátttöku í lyfi. Lyfjadeild Sjúkratrygginga Íslands útbúi vinnureglu fyrir greiðsluþátttöku í lyfi í samræmi við ákvörðun lyfjagreiðslunefndar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×