Innlent

Sló stúlku ítrekað í andlitið

Stefán Árni Pálsson skrifar
visir
Mikill erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt og var nokkuð um ölvunarakstur.

Tilkynnt var um líkamsárás í Miðborginni á fimmta tímanum en tveir menn eru sagðir hafa ráðist á tvær stúlkur og var önnur þeirra slegin ítrekað í andlitið.

Snemma í gærkvöldi var óskað eftir aðstoð á sjúkrastofnun þar sem maður í annarlegu ástandi hafði komið þangað og verið til vandræða. Maðurinn var handtekinn og vistaður í fangageymslu.

Rétt eftir kvöldmatarleytið í gær var maður handtekinn í Breiðholtinu grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna en maðurinn var einnig próflaus. Maðurinn er einnig grunaður um stuld en hann hafði fyrr um daginn fengið bifreið sem auglýst hafði verið til sölu lánaða í prufuakstur og ekki skilað bifreiðinni aftur.

Maður var handtekinn á heimili í Austurborginni á fimmta tímanum í nótt en hann er grunaður um líkamsárás. Maðurinn var gestkomandi á heimilinu og var hann vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn máls.

Sautján ára drengur var handtekinn í miðborginni rétt fyrir miðnætti í gær grunaður um eignaspjöll. Drengurinn var ölvaður og er grunaður um að hafa skemmt þrjár bifreiðar með spörkum.

Faðir hans kom og sótti hann á lögreglustöð og verður hann kallaður síðar í skýrslutöku. Tilkynning var send til Barnaverndar í framhaldinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×