Innlent

Segir bæjarstjórnina þurfa að greiða úr málum við jökullón

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Miklir hagsmunir felast í sívaxandi ásókn að útsýnissiglingum um jökullónin eystra.
Miklir hagsmunir felast í sívaxandi ásókn að útsýnissiglingum um jökullónin eystra. Fréttablaðið/Valli
„Þetta er eitt af stóru málunum sem ný sveitarstjórn þarf að takast á við,“ segir Ásgrímur Ingólfsson, bæjarfulltrúi í Hornafirði, sem lagði til á síðasta bæjarstjórnarfundi að einu bátasiglingafyrirtæki í viðbót yrði veitt stöðuleyfi við Jökulsárlón.

Bæjarstjórnin samþykkti á fundinum eftir auglýsingu að veita fyrirtækinu Fjallsárlóni ehf. leyfi til að starfa á austurbakka Fjallsárlóns. Tvö önnur fyrirtæki sóttu um leyfið, þar á meðal Ice Lagoon, sem Ásgrímur lagði til að fengi stöðuleyfi til eins árs á vesturbakka Jökulsárlóns. Vandinn er sá að þar er þjóðlenda og ekki gert ráð fyrir slíkri starfsemi með skipulagi. Ásgrímur segir að leyfi fyrir Ice Lagoon hafi verið hafnað því menn vilji hafa fyrirtækin innan skipulags.

„Ég er svo sem sammála því en það virðist bara ekki ganga,“ segir Ásgrímur og vísar til þess að sveitarfélagið hafi í fyrra kostað nýtt skipulag á einkalandi á austurbakka Jökulsárlóns.

„Sveitarfélagið ákvað að fara í þetta í von um að höggva á þann hnút sem þarna er og vonaðist til að þeir sem óskuðu eftir að koma þarna með rekstur færu að starfa inni í því skipulagi. En það þarf samþykki allra landeigenda til og það hefur ekki gengið hingað til,“ segir Ásgrímur Ingólfsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×