Innlent

Rigning í vændum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Þessir ferðamenn létu smá vætu ekki stoppa sig.
Þessir ferðamenn létu smá vætu ekki stoppa sig.
Landsmenn hafa ekki farið varhluta af blíðviðri síðustu daga og má segja að um nánast allt land hafi veðrið leikið við hvurn sinn fingur upp á síðkastið.

Þrátt fyrir að skýjað hafi verið yfir öllu landinu hefur verið óvenjulega hlýtt en á þremur stöðum á Suður –og Suðausturlandi fór hitinn yfir tuttugu gráður, við Kirkjubæjarklaustur, Hallormsstað og í Skaftafelli.

Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofunni, segir það stafa af því að engrar hafgolu hafi notið við. „Hafgola verður þegar sól skín á land og landið hitast upp. Það verður því töluvert hlýrra en aðliggjandi sjór og við það myndast hitamismunur. Tekur þá kalt loft að streyma af hafi í leit sinni við að jafna hitamismuninn út,“ útskýrir Elín.

Samkvæmt Veðurstofunni má búast við því að í byrjun næstu viku taki að rigna um nánast allt land og að skil verði í veðrinu vestan til í nótt.  Þó verður áfram hlýtt í veðri og því ætti léttur pollagalli að vera kjörinn klæðnaður á næstu dögum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×