Innlent

24 fengið hæli á Íslandi

Bjarki Ármannsson skrifar
Útlendingastofnun veitti 24 einstaklingum hæli eða dvalarleyfi vegna mannúðarástæðna á tímabilinu.
Útlendingastofnun veitti 24 einstaklingum hæli eða dvalarleyfi vegna mannúðarástæðna á tímabilinu. Vísir/Stefán
Samtals sóttu 112 um hæli á Íslandi á fyrstu þremur fjórðungum ársins. Umsóknir 42 voru teknar til efnismeðferðar hjá Útlendingastofnun og fengu 24 hæli eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum.

Þetta kemur fram í bráðabirgðatölfræði sem Útlendingastofnun birti í gær um fyrstu þrjá fjórðunga ársins 2014. Veitingarhlutfall hælis á þessu tímabili er 57 prósent, töluvert hærra en á sama tíma í fyrra þegar sextán prósent mála í efnismeðferð lauk með hælisveitingu. Það lága hlutfall er sagt skýrast að mestu af því að stórir hópar frá ríkjum sem talin eru örugg sóttu um hæli, einkum frá Albaníu og Króatíu.

Íranar eru fjölmennasti hópurinn meðal þeirra sem hafa fengið hæli eða dvalarleyfi á árinu eða fimm talsins. Úkraínumenn eru hins vegar fjölmennastir meðal þeirra sem sóttu um.

Alls 96 prósent umsókna um dvalarleyfi voru samþykkt á tímabilinu sem um ræðir, eða 2.464 af 2.745. 452 einstaklingar fengu veittan íslenskan ríkisborgararétt eða 83 prósent þeirra sem sóttu um hjá Útlendingastofnun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×