Innlent

Telur Strætó hafa átt að auglýsa stöðuna

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Stjórnarmenn fyrirtækisins höfðu ekki kynnt sér málið þegar Fréttablaðið leitaði viðbragða
Stjórnarmenn fyrirtækisins höfðu ekki kynnt sér málið þegar Fréttablaðið leitaði viðbragða Fréttablaðið/Vilhelm
„Mér finnst alltaf skrýtið þegar stöður eru ekki auglýstar hvort sem þær eru tímabundnar eða ekki,“ segir Karen Elísabet Halldórsdóttir, bæjarfulltrúi í Kópavogi.

Líkt og Fréttablaðið greindi frá á föstudag lagði Karen fram fyrirspurn á bæjarráðsfundi í Kópavogi vegna ráðningar Guðrúnar Ágústu Guðmundsdóttur sem hefur verið ráðin tímabundið til eins árs í starf verkefnastjóra stefnumótunar hjá Strætó bs. Karen finnst það orka tvímælis að staðan hafi ekki verið auglýst sem og að Guðrún Ágústa hafi haft greiðari aðgang að stöðunni þar sem hún er fyrrverandi formaður stjórnar Strætó bs.

Karen segir að siðareglur bæjarstjórnar Kópavogs hefðu komið í veg fyrir að hún hefði getað tekið að sér þessa stöðu, vegna þess að hún er í bæjarstjórn og fyrrverandi formaður stjórnar félagsins. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar sé hins vegar með aðrar siðareglur. Hún efast hins vegar ekki endilega um hæfni Guðrúnar.

Strætó bs. er byggðasamlag sem er rekið af sveitarfélögunum Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesi. Þeir stjórnarmeðlimir Strætó bs. sem Fréttablaðið náði sambandi við höfðu ekki kynnt sér málið en fyrirspurn Karenar er beint til stjórnarinnar.

Ekki náðist í Reyni Jónsson, framkvæmdastjóra Strætó bs., við vinnslu fréttarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×