Innlent

Vara við afnámi kvóta á síróp úr maís

gosdrykkir Hægt er að innbyrða mikið magn sykurs á skömmum tíma þegar hann er í fljótandi formi.fréttablaðið/Valli
gosdrykkir Hægt er að innbyrða mikið magn sykurs á skömmum tíma þegar hann er í fljótandi formi.fréttablaðið/Valli
„Það eru engar áætlanir um að breyta innihaldi þeirra vara sem seldar eru á Íslandi eftir því sem við vitum best hjá Vífilfelli.“ Þetta segir Stefán Magnússon, markaðsstjóri Vífilfells, vegna afnáms kvóta á kornsíróp innan Evrópusambandsins árið 2017.

Guðni Sigurjónsson hjá Ölgerðinni segir notkun þess ekki á stefnuskrá. Kornsíróp er sætuefni unnið úr maís og er ódýrara en venjulegur sykur.

Á vef danska ríkisútvarpsins er haft eftir Per Bendix Jeppesen við Háskólann í Árósum, sem rannsakar sykursýki og offitu, að vísindamenn óttist að matvælaiðnaðurinn í Evrópu muni gleypa við sykurtegundinni high fructose corn syrup, HFCS. Jeppesen telur að aukin neysla þessarar sykurtegundar geti leitt til þess að fleiri veikist.

Taka á málið fyrir hjá Evrópuþinginu. Anna Sigríður Ólafsdóttir, dósent í næringarfræði við Háskóla Íslands, segir kenningar uppi um að mikið magn frúktósa í fæðinu sé slæmt heilsunni og valdi offitu, sérstaklega kviðfitusöfnun, og brengli seddustjórnun.

„Hins vegar snýst þetta allt um jafnvægi og heildarmagn og vandinn er ekkert síður til staðar með venjulegan sykur. Það skiptir langmestu máli að við áttum okkur á því að mikið magn af sykri er skaðlegt heilsunni og því þarf að breyta matvælaframleiðslu í þá átt að við hverfum frá sæta bragðinu og minnkum bæði magn og fækkum matvælum sem eru sæt í stað þess að skipta út sykurtegundum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×