Innlent

Straumtruflana að vænta á Vestfjörðum

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Ný varaaflsstöð Landsnets í Bolungarvík.
Ný varaaflsstöð Landsnets í Bolungarvík. Mynd/Landsnet
Straumtruflanir verða aðfaranótt 12. nóvember hjá íbúum Bolungarvíkur og Ísafjarðar og víðast á Vestfjörðum aðfaranótt 13. og 14. nóvember.

Landsnet segir ástæðuna álagsprófanir vegna lokafrágangs í umfangsmiklu uppbyggingarferli raforkumála á svæðinu sem til framtíðar eigi að draga verulega úr líkum á langvarandi straumleysi á Vestfjörðum.

„Með tilkomu nýrrar 10 MW varaaflsstöðvar Landsnets í Bolungarvík og fleiri aðgerðum hyllir nú undir að þetta sameiginlega markmið Landsnets og Orkubús Vestfjarða verði að veruleika. Framkvæmdir við varaflsstöðina hófust árið 2013 og þessa dagana er verið að leggja lokahönd á verkið með prófunum á vélbúnaði og tæknibúnaði,“ segir í frétt um málið á vef Landsnets.

„Í næstu og þarnæstu viku, eða dagana 10. – 19. nóvember, fer síðasti verkáfanginn fram sem eru álagsprófanir á svæðiskerfið vestra. Fyrirséð er að þær munu valda truflunum hjá notendum víða á Vestfjörðum en reynt verður að lágmarka áhrifin eins og kostur er, m.a. með því að gera sem flestar þessara prófana að næturlagi.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×