Innlent

Illugi vill engu svara um athugasemdirnar

 Markmið vísinda- og tækniráðs er að efla samkeppnissjóðina.
Markmið vísinda- og tækniráðs er að efla samkeppnissjóðina. Fréttablaðið/Vilhelm
Menntamálaráðuneytið telur þann samning sem gerður var við fyrirtækið Rannsóknir og greiningu ehf. í upphafi árs 2009 ekki vera útboðsskyldan. Ríkisendurskoðun ætlar að taka samning menntamálaráðuneytisins við Rannsóknir og greiningu ehf. til athugunar. Grunur leikur á að samningurinn brjóti í bága við lög um opinber innkaup. Fram kom í Fréttablaðinu á þriðjudaginn að ráðuneytið gerði samning við fyrirtækið um æskulýðsrannsóknir.

Menntamálaráðuneytið telur samninginn ekki falla undir lög um opinber innkaup, heldur sé um styrk að ræða til fyrirtækisins. Bendir ráðuneytið á sérstöðu rannsókna fyrirtækisins þar sem þær eigi sér langa sögu og mikilvægt sé að samfella rannsókna sem þessara haldist.

Athugasemdir Ríkisendurskoðunar snúast aðallega um þrennt: Uppsagnarákvæði hafi vantað, einnig vantaði ákvæði um eftirlit ráðuneytisins með framkvæmd rannsókna og að fjárhæðir í samningnum kalli á útboðsskyldu samkvæmt lögum um opinber innkaup.

Menntamálaráðherra og aðstoðarmaður ráðherra hafa ekki gefið kost á viðtölum vegna athugasemda Ríkisendurskoðunar þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Illugi Gunnarsson Ekki hefur náðst í menntamálaráðherra vegna umdeildra samninga. Fréttablaðið/GVA
Yfirlýst markmið Vísinda- og tækniráðs er að efla og styrkja samkeppnissjóði þegar kemur að kostun rannsóknarverkefna á Íslandi. Hallgrímur Jónasson, forstöðumaður Rannís, segir það ekki vera neitt leyndarmál að þau hjá Rannís vilji að sem mest af rannsóknarfé á Íslandi fari í gegnum samkeppnissjóði. Þannig megi hafa sem mesta yfirsýn yfir rannsóknir, meta gæði þeirra og tryggja að allir sem stundi líkar rannsóknir sitji við sama borð þegar kemur að úthlutunum úr rannsóknarsjóðunum. „Það er okkar skoðun að sem mest fjármagn fari í gegnum þá samkeppnissjóði sem við búum yfir. Hins vegar get ég ekki tekið efnislega afstöðu til þess samnings sem ráðuneytið gerði við Rannsóknir og greiningu á sínum tíma. Líklegt þykir þó að þessi samningur sé útboðsskyldur en það er allt annað mál og okkur óviðkomandi,“ segir Hallgrímur. 

Samningur Rannsókna og greiningar ehf. við menntamálaráðuneytið er ekki eini samningur fyrirtækisins við ráðuneytið á kjörtímabilinu frá 2007-2009. Á árinu 2008 vann fyrirtækið fyrir heilbrigðisráðuneyti Guðlaugs Þórs Þórðarsonar við mótun, gerð og kynningu á heilsustefnu auk vinnu við gerð frumvarps um lýðheilsustöð. Fékk fyrirtækið greidda rétt tæpa eina og hálfa milljón fyrir það verk. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×