Innlent

Spennan magnast í Spennistöðinni

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Eftir áralanga vinnu íbúasamtakanna, foreldrafélagsins, frístundamiðstöðvarinnar, félagsmiðstöðvarinnar, unglinganna, skólans og borgarinnar hillir í að dyrum hverfismiðstöðvarinnar verði upp lokið.
Eftir áralanga vinnu íbúasamtakanna, foreldrafélagsins, frístundamiðstöðvarinnar, félagsmiðstöðvarinnar, unglinganna, skólans og borgarinnar hillir í að dyrum hverfismiðstöðvarinnar verði upp lokið. Fréttablaðið/Ernir
„Unglingarnir okkar bíða ofboðslega spenntir og hlakka til að fá góða aðstöðu til þess að hittast,“ segir Soffía Pálsdóttir hjá frístundasviði Reykjavíkurborgar sem um mánaðamótin tekur við lyklavöldum í Spennistöðinni við Austurbæjarskóla.

Reykjavíkurborg keypti á árinu 2012 gamla spennistöðvarhúsið sem Orkuveitan hafði þá um langa hríð notað sem geymslu. Soffía segir fulltrúa margra hópa í hverfinu og frá borginni hafa unnið að stofnun félags- og menningarmiðstöðvar sem nú verði að veruleika.

„Húsnæðið verður notað á daginn fyrir skólastarf og á eftirmiðdaginn og kvöldin ákveðinn hluta vikunnar fyrir félagsmiðstöðvarstarf fyrir börn og unglinga í hverfinu. Utan þess þá verður þetta miðstöð fyrir íbúana, foreldrafélagið og fleiri aðila til þess að geta verið með fundi og einhvers konar samkomur,“ segir Soffía.

Soffía Pálsdóttir.
Unnið hefur verið að standsetningu Spennistöðvarinnar. Stærsti hluti byggingarinnar er þó enn einn geimur og þar er hátt til lofts og vítt til veggja.

„Í framtíðinni þegar við erum komin þarna inn ætlum við að sjá hvort við viljum búa til einhverja millihæð og hólfa þetta meira niður. Hugsunin er svolítið sú að íbúarnir og börnin og unglingarnir fái að þróa þetta og móta. Það er það sem er kannski skemmtilegt við þetta konsept og þannig varð þessi hugmynd til; hún kom frá grasrótinni,“ segir Soffía.

Ekki er enn ljóst hvenær dyrum Spennistöðvarinnar verður lokið upp fyrir almenning. „Við þurfum smá tíma til að koma öllu í stand. Svo munum við halda flotta hverfishátíð með hverfisbúum og fagna þessum áfanga. Ætlunin er að nýta þetta til gleði fyrir hverfisbúa,“ segir Soffía Pálsdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×