Innlent

Mjólkurfita verndar gegn sykursýki tvö

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Niðurstöður rannsóknar vísindamanna við Háskólann í Lundi í Svíþjóð á 27 þúsund Svíum benda til að þeir sem neyta mjólkurvara með miklu fituinnihaldi eigi síður á hættu að fá sykursýki tvö en aðrir. Vísindamennirnir kynntu niðurstöður rannsóknarinnar á ráðstefnu í Vín í Austurríku um sykursýki.

Þátttakendur í rannsókninni voru 45 til 74 ára. Enginn þeirra var með sykursýki þegar þeir voru spurðir um mataræði sitt 1991 til 1996. Fylgst var með þátttakendunum í 14 ár en á því tímabili fengu 2.860 þeirra sykursýki tvö.

Önnur rannsókn, sem vísindamenn við Háskólann í Cambridge í Englandi gerðu, hefur leitt í ljós að mjólkurafurðir verndi gegn sykursýki. Niðurstöður hennar voru hins vegar á þann veg að það væru fitusnauðar mjólkurvörur sem vernduðu gegn sykursýki tvö.

Breska rannsóknin sýndi ekki hverjar væru ástæður jákvæðra áhrifa fitusnauðrar mjólkur og sænska rannsóknin gaf heldur ekki svör við því hversu vegna mjólkurfita virkar vel. Í frétt á vefnum forskning.no er haft eftir einum sænsku vísindamannanna að sænskir vísindamenn skilgreini mögulega ekki mjólkurfitu á sama hátt og þeir bresku.

Neysla Svía og Breta á mjólkurvörum sé auk þess mismikil og þar með hvað sé talin mikil eða lítil neysla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×