Innlent

Fórnarlömbum nauðgana vísað frá vegna læknaskorts

Snærós Sindradóttir skrifar
Neyðarmóttaka nauðgana er staðsett í Fossvogi og opin allan sólarhringinn. Þar fá fórnarlömb kynferðisofbeldis viðeigandi aðhlynningu. Fréttablaðið/Vilhelm
Neyðarmóttaka nauðgana er staðsett í Fossvogi og opin allan sólarhringinn. Þar fá fórnarlömb kynferðisofbeldis viðeigandi aðhlynningu. Fréttablaðið/Vilhelm Vísir/GVA
Dæmi eru um að fórnarlömb kynferðisofbeldis sem leita til neyðarmóttöku í Fossvogi séu beðin um að koma aftur síðar og klára rannsókn því enginn læknir er til staðar á deildinni.

Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að lögreglan á Selfossi hafi keyrt fórnarlamb nauðgunar á neyðarmóttöku til rannsóknar en vegna læknaskorts hafi verið farið með fórnarlambið aftur til baka. Ekki hafi þótt tækt að bíða svo klukkustundum skipti eftir lækni á neyðarmóttöku. Réttarrannsókn var í kjölfarið gerð á Heilbrigðisstofnun Suðurlands.

Gunnhildur Pétursdóttir, sem sinnir réttargæslu fyrir fórnarlömb kynferðisofbeldis, segir að í undantekningartilfellum geti skapast alvarlegar aðstæður. „Þetta er alls ekki nógu gott. Ótrúlegt en satt þá hefur þetta reddast og það er ekki mjög algengt að þessi staða komi upp.“

Eyrún Jónsdóttir Verkefnastjóri neyðarmóttöku. Fréttablaðið/Anton Brink
Hún segir að æskilegra væri að læknir væri til staðar allan sólarhringinn til að taka á móti fórnarlömbum.

„Í fyrsta lagi getur verið að sýni fari forgörðum ef þau eru ekki tekin strax. Þetta getur líka haft þannig áhrif að fórnarlömbin hætta við og veigra sér við að koma aftur til að klára rannsókn. Ég var með skjólstæðing sem fór á neyðarmóttöku um morguninn og var beðinn um að koma aftur síðar. Hún var orðin örþreytt. Þetta er rosalegt álag á brotaþola.“

Eyrún Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingur og verkefnastjóri neyðarmóttöku, segir að ástæðuna megi rekja til þess að deildin sé einungis með lækna á bakvakt. „Þeir starfa ekki innan spítalans heldur á sínum stofum úti í bæ. Þeir eru með fullbókaða dagskrá hjá sér alla daga því það er ekki vitað hvenær svona mál koma inn.“ Hún segir að oftast leiti fórnarlömb til neyðarmóttöku um helgar eða á nóttunni.

„Það eru alltaf undantekningar og það er alltaf dapurt. Það er erfitt fyrir þolendur en það vita allir sem koma að þessu, eins og lögreglan, hvernig þetta er,“ segir Eyrún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×