Innlent

Stefnir í betri kartöfluuppskeru en í fyrra

Haraldur Guðmundsson skrifar
Bergvin Jóhannsson ræktar kartöflur á bænum Áshóli í Grýtubakkahreppi.
Bergvin Jóhannsson ræktar kartöflur á bænum Áshóli í Grýtubakkahreppi.
„Ég held að þetta verði alveg sæmilega gott ár en ég hef ekki trú á því að þetta muni duga landinu,“ segir Bergvin Jóhannsson, formaður Félags kartöflubænda, um uppskeru sumarsins.

Bergvin spáir að uppskeran verði betri í ár en í fyrra þegar hún var einungis um sjö þúsund tonn. Kartöflubændur hafi talið þau ár góð þegar magnið var nær 12 til 13 þúsund tonnum.

„Það er það mikið eftir af uppsprettutímanum að það er ekki hægt að segja til um hvernig þetta mun enda fyrr en í septemberlok. En ég spái að þetta verði um níu þúsund tonn,“ segir Bergvin.

Kartöflur eru að hans sögn ræktaðar á Eyjafjarðarsvæðinu, í Hornafirði og Þykkvabæ.

„Það er óljóst með Þykkvabæinn. Sprettan þar er ekki orðin nálægt því nógu góð vegna bleytu og sólarleysis í sumar. Uppskeran í fyrra var mjög slæm og þá sérstaklega í Þykkvabænum og rétt undir meðallagi norðanlands en ágæt í Hornafirði.“

Bergvin segir suma kartöflubændur sem ræktuðu undir dúk hafa getað selt beint í verslanir í kringum 20. júlí síðastliðinn.

„Það sem er sett undir dúk er alltaf dálítið á undan en það er bara svo dýr ræktun að menn geta ekki nýtt það nema að litlu leyti.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×