Innlent

Nemum í tölvunarfræði fjölgað um 300 prósent á fjórum árum

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Heldur færri nemendur verða við nám í HÍ í vetur en undanfarin ár.
Heldur færri nemendur verða við nám í HÍ í vetur en undanfarin ár. Vísir/Anton
Nemendum við Háskóla Íslands fækkar um nærri þúsund frá fyrra ári. Reiknað er með því að nemendur á næsta skólaári verði rúmlega 13 þúsund en þeir hafa undanfarin ár verið í kringum 14 þúsund. Þrátt fyrir að nemendum í heild fækki þá er fjöldi nýnema svipaður og undanfarin tvö ár, eða 2.900.

Samkvæmt upplýsingum frá Háskólanum er skipting nemenda eftir kynjum sú sama og undanfarin ár, tveir þriðju nemenda eru konur en karlar eru einn þriðji.

Sú grein þar sem nemendum hefur fjölgað hvað mest síðustu misseri er tölvunarfræði, nemendur í tölvunarfræði voru 54 haustið 2010 en 220 nýnemar hefja nám í tölvunarfræði í haust.

Fjölmennasta námsgreinin á meðal nýnema er viðskiptafræði. Þar hafa 275 nemendur staðfest skólavist. Um 200 hyggja á nám í sálfræði og nærri 150 í hjúkrunarfræði.

Í verkfræðigreinum sem kenndar eru í Háskóla Íslands hefja samtals um 220 nemendur nám í haust, en þess má geta að í rafmagns- og tölvuverkfræði fjölgar konum mikið í ár miðað við síðustu ár.

Mest fækkun nýnema er í lögfræði, 80 hefja nám í haust en voru 200 í fyrra. Skýringin er sú að inntökupróf voru tekin upp í greininni í ár.

Háskólanemum fjölgaði mikið í kjölfar efnahagshrunsins. Árið 2010 voru þeir um 10 þúsund en voru um 14 þúsund árin þar á eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×