Innlent

Fleiri kæra fyrrverandi stjórn Lifandi markaðar

Snærós Sindradóttir skrifar
Karen Emilía Jónsdóttir eigandi Kaja Organic ehf.
Karen Emilía Jónsdóttir eigandi Kaja Organic ehf. VÍSIR/aðsend
Lífræni heildsalinn Kaja organic ehf. hefur kært fyrrverandi stjórnendur Lifandi markaðar fyrir fjársvik og blekkingar. Þar með fylgir fyrirtækið í fótspor heildsölunnar Innness ehf. sem kærði stjórnina í síðasta mánuði fyrir sömu sakir.

Eins og Fréttablaðið greindi frá þann 28. júlí síðastliðinn snúa ásakanir heildsalanna að viðskiptum Lifandi markaðar eftir að fyrirtækið óskaði eftir því að vera tekið til gjaldþrotaskipta.

Gerðar voru pantanir hjá báðum heildsölunum þrátt fyrir að Lifandi markaði mætti vera ljóst að ekkert yrði af greiðslu þeirra skulda sem fyrirtækið stofnaði til. Jafnframt gerir Kaja organic ehf. kröfu um endurgreiðslu á eldri skuld fyrirtækisins. Krafa Kaja organic í þrotabú Lifandi markaðar hljóðar upp á rúmar 900 þúsund krónur.

„Ástæða þess að ég kæri er að vinnubrögð varðandi þetta gjaldþrot eru óskaplega skrítin. Maður er svo ósáttur við að það skuli líðast að stjórnendur geti lokað virðisaukaskattsnúmerinu en haldið viðskiptum áfram,“ segir Karen Emilía Jónsdóttir, eigandi Kaja organic ehf.

Eigandi Lifandi markaðar var verðbréfafyrirtækið Virðing.

„Þegar ég frétti þetta þá sendi ég bréf á forstjóra Virðingar, stjórnarformann Lifandi markaðar og framkvæmdastjóra eignastýringar og spurði hvernig stæði á því að fyrirtæki sem gefur sig út fyrir að vera betra en önnur fyrirtæki hvað varðar viðskiptasiðferði skuli haga sér svona. Ég fékk svar þess efnis frá stjórnarformanninum að þetta væri ekki lengur í þeirra höndum því þetta væri komið til gjaldþrotaskipta,“ segir Karen. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×