Innlent

Hætta á að heyrnaskertir einangrist

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Niðurgreiðsla á heyrnartækjum nemur um sextíu þúsund krónum. Heyrnartæki kosta aftur á móti á bilinu 150-500 þúsund og meira ef heyrnin er mjög slæm.
Niðurgreiðsla á heyrnartækjum nemur um sextíu þúsund krónum. Heyrnartæki kosta aftur á móti á bilinu 150-500 þúsund og meira ef heyrnin er mjög slæm. vísir/vilhelm
Framkvæmdastjóri Heyrnarhjálpar segir mikinn skort á þjónustu við heyrnarskerta á Íslandi. Talað sé fyrir daufum eyrum ráðamanna þar sem fötlunin virðist álitin eðlilegur fylgifiskur ellinnar.

„Mun fleiri búa við heyrnarskerðingu en margir telja, eða um fimmtíu þúsund manns á Íslandi. Aðeins þriðjungur þeirra fá heyrnarskerðingu vegna elli og margir eru heyrnarskertir frá blautu barnsbeini,“ segir Kolbrún Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Heyrnarhjálpar.

Eitt helsta baráttumál Heyrnarhjálpar er að lækka kostnað heyrnarskertra við kaup á heyrnartækjum. Annað mikilvægt baráttumál er aukið aðgengi heyrnarskertra að rittúlkum. Rittúlkar skrifa niður texta á skjá eða blað fyrir heyrnarskerta á fundum, ráðstefnum og öðrum viðburðum, en ríkið styrkir ekki slíka túlkaþjónustu.



Kolbrún Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Heyrnarhjálpar
Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra fær rúmlega 100 milljóna króna framlag á ári frá ríkinu sem fer í kennslu, fræðslu og rannsóknir á táknmáli. Að auki 18,6 milljónir á ári hverju í táknmálstúlkun en á síðasta ári nýttu 178 heyrnarlausir einstaklingar sér þá þjónustu.

Heyrnarskertir, sem er mun stærri hópur, fá ekki slíkt framlag frá ríkinu. Heyrnarhjálp fær átta milljónir á ári til reksturs frá ríkinu en ekkert fjármagn er eyrnamerkt rittúlkunum.

„Táknmálstúlkun nýtist ekki heyrnarskertum þar sem íslenskan er þeirra móðurmál. Því þurfa þeir rittúlkun,“ segir Kolbrún. „Að auki tel ég að miklu fleiri en heyrnarskertir njóti góðs af rittúlkun, til að mynda heyrnarlausir og þeir sem eru að læra íslensku. En þetta er lykilatriði fyrir heyrnarskerta, því þetta er þeirra aðgengisleið að samfélaginu.“

Inga Vigdís Einarsdóttir hefur alltaf heyrt illa og hefur heyrnin versnað með aldrinum.
Hefur oft upplifað sig eina í heiminum 

Inga Vigdís Einarsdóttir hefur verið heyrnarskert frá því hún var lítil. Hún segist aldrei hafa fundið fyrir stuðningi við fötlun sína og segir að það vanti sárlega fræðslu um heyrnarskerta, bæði til þeirra sjálfra og samfélagsins.

„Ég fór í gegnum alla skólagönguna með mjög slæma heyrn en var aldrei send til læknis eða séð til þess að ég fengi heyrnartæki. Það var í raun aldrei minnst á það við mig að ég ætti möguleika á að fá heyrnartæki.“

Inga var orðin fertug þegar hún fékk fyrsta heyrnartækið. Pabbi hennar fékk óvæntan pening og keypti það handa henni.

„Tækið er orðið átta ára gamalt núna en maður þarf að skipta á fimm ára fresti. Ný heyrnartæki kosta 800 þúsund krónur og ég fæ 60 þúsund frá sjúkratryggingum. Ég hef hreinlega ekki efni á nýjum tækjum en er eiginlega hætt að heyra með þessum.“

Inga segir það snúa skökku við hve lágan styrk heyrnarskertir fá. Móðir hennar fékk 80 þúsund króna styrk frá TR til hárkollukaupa vegna hárloss. Hún gat keypt tvær kollur, hárkollustand og hárkollusápu en átti samt afgang.

„Það er skrýtið hvað maður fær litla þjónustu því þetta er fötlun. Ég get ekki tekið almennilega þátt í samræðum án heyrnartækja, oft svara ég út í hött þegar ég er spurð einhvers og það getur verið svo óþægilegt að ég dreg mig úr samskiptunum. Í raun hefur mér alltaf liðið svolítið einni úti í horni með þennan vanda.“

Inga fann vel fyrir því á skólagöngunni, henni var strítt og hún átti erfitt með að eignast vini. Hún segir sárlega vanta fræðslu um heyrnarskerðingu og þjónustu við þennan stóra hóp.

„Meira að segja hef ég lent í að biðja lækna um að tala hærra svo ég heyri í þeim en það er rétt fyrstu mínútuna sem þeir muna eftir því. Það eru takmörk fyrir hversu oft maður segir „ha“ í samræðum við fólk svo það er hætta á að maður gefist upp á því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×