Innlent

Veitingahús og verslanir vantar hrefnukjöt

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Sífellt fleiri veitingahús bjóða upp á hrefnukjöt.
Sífellt fleiri veitingahús bjóða upp á hrefnukjöt. Vísir/Jón Sigurður
Hrefnuveiðimenn hafa aðeins veitt átján hrefnur í ár sem dugir skammt fyrir verslanir og sérstaklega veitingahús sem sífellt fleiri bjóða upp á hrefnukjöt.

„Það væri gott að hafa tíu til viðbótar,“ segir Gunnar Bergmann Jónsson, framkvæmdastjóri Hrefnuveiðimanna. „Ég á 300 kíló núna af síðustu skepnu og það verður búið á mánudaginn.“

Erfitt er um veiðar meðan makríllinn er á ferð um Faxaflóann, þar sem veiðarnar fara fram, því lítið er um æti þegar hann hefur farið yfir. Eins er erfitt að hæfa hrefnu sem eltir uppi makríl því þá verður hún að vera snör í snúningum. Þá hefur veður verið óhagstætt.

Gunnar segir að hrefnuveiðimenn stefni að því að veiða álíka margar skepnur og í fyrra þótt það taki lengri tíma. „Við megum vera að til 30. október. Ætli við förum ekki langt með að nýta okkur það.“

Ástæða er einnig til að halda að hvalurinn sé að dóla sér lengur fram á vetur. Til dæmis veiddist í miðjum ágúst fyrir tveimur árum hrefna sem var með lús sem þýðir að hún var nýkomin úr syðri sjó.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.