Lífið

Landsliðsmenn í körfubolta setja á sig svuntu á milli leikja

„Við erum báðir miklir matarfíklar og sælkerar og okkur hefur lengi langað til þess að búa til eitthvað saman,“ segir körfuknattleiksmaðurinn Jón Arnór Stefánsson, en hann og annar körfuknattleiksmaður, Pavel Ermolinskij, opna kjöt- og fiskbúð á næstu vikum í miðbæ Reykjavíkur, á horni Spítalastígs og Bergstaðastrætis, nánar tiltekið Bergstaðastræti 14.

„Pavel á nú upphaflega hugmyndina að búðinni. Það er svo mikið að gerast í miðbænum í dag, mikið líf og okkur fannst vanta svona ekta hverfisbúð í miðbæinn. Staðsetningin er alveg mögnuð,“ segir Jón Arnór.

Þeir félagar eru nú á fullu þessa dagana að standsetja búðina og gera ráð fyrir að hún verði opnuð eftir um það bil tvær vikur.

Jón Arnór, sem spilar körfuknattleik með CAI Zaragoza á Spáni, á þó í erfiðleikum með að afgreiða í búðinni yfir vetrartímann þegar körfuboltatímabilið er í gangi.

„Það er synd að við náðum ekki að opna fyrr í sumar, það hefði verið gaman að vera með svuntuna og afgreiða en ég mun hins vegar gera það þegar ég kem heim í fríum. Pavel ætlar að standa vaktina með svuntuna á milli leikja og æfinga,“ segir Jón Arnór en Pavel leikur með KR og því stutt að skreppa.

Þeir félagar ætla sér að bjóða upp á gæðahráefni og meðal annars eigin sósu. „Við erum miklir sælkerar og ætlum að leggja mikið upp úr hráefninu, íslensku og erlendu. Við verðum líka með meðlæti og ætlum að vera með okkar eigin sósur, sem verða frábærar á bragðið,“ segir Jón Arnór og hlær.

Körfuknattleikskapparnir njóta einnig aðstoðar fagfólks í vali á hráefni og á uppsetningu búðarinnar.

„Hafsteinn Júlíusson hjá HAF studio hjálpaði okkur að hanna rýmið, gera það smekklegt og flott. Við verðum svo í samstarfi við veitingastaðinn Snaps í hráefnisvali,“ bætir Jón Arnór við.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.