Innlent

Óvissustig áfram í gildi við Sólheimajökul

Svavar Hávarðsson skrifar
Myndin sýnir glögglega hvar jökulsporðurinn rís þar sem hann skagar út í lónið.
Myndin sýnir glögglega hvar jökulsporðurinn rís þar sem hann skagar út í lónið. mynd/ágúst gunnar gylfason
Sporður Sólheimajökuls breytist mikið frá degi til dags. Óvissustigi almannavarna verður haldið óbreyttu þar til frekari niðurstöður rannsókna liggja fyrir.

Eins og fram hefur komið í fréttum hafa aðstæður við sporð Sólheimajökuls breyst hratt að undanförnu. Sporður jökulsins gengur nú fram í jökullón og að undanförnu hafa jakar brotnað framan af jökulsporðinum og fallið í lónið. Við það að jökullinn gengur fram í lónið lyftist sporður jökulsins og nú síðustu daga hefur fremsti hluti sporðsins lyfst um 1,5 metra. Vegna hættu á að stór jökulbrot falli fram í lónið, með hættu á flóðbylgju yfir flatlendi við lónið, eru í gildi takmarkanir á mannaferðum á svæðinu.

Þær upplýsingar fengust hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra að óvissustigi yrði viðhaldið næstu daga, en jöklasérfræðingar verða í dag á svæðinu við rannsóknir.

Barði Theodórsson, hjá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum, segir alla starfsmenn fyrirtækisins sem hafa komið að jöklinum undanfarna viku sammála um að jökullinn breyti sér gríðarlega hratt. Ferðafólki er haldið utan þess svæðis sem skilgreint hefur verið sem hættusvæði, en ferðamenn eru leiddir að jöklinum eftir sem áður. Mest hætta er talin vera af umferð ferðamanna á eigin vegum, en björgunarsveitarfólk stendur vaktina og leiðbeinir þeim sem fara um svæðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×