Innlent

Útlendingar koma til að kynnast Víðgelmi

Ýmsar gersemar ber að líta fyrir þá sem fara leiðina á enda í Víðgelmi.mynd/Halldór Heiðar Bjarnason
Ýmsar gersemar ber að líta fyrir þá sem fara leiðina á enda í Víðgelmi.mynd/Halldór Heiðar Bjarnason
Svo virðist sem fyrst og fremst útlendingar kynni sér einn víðfeðmasta hraunhelli heims þótt stutt sé fyrir Íslendinga að vitja hans í Borgarfirðinum.



Þetta er hellirinn Víðgelmir í Hallmundarhrauni skammt frá Fljótstungu í Hvítársíðu. Bjarni H. Johansen, sem er nú syni sínum Halldóri innan handar með ferðaþjónustu í Fljótstungu, segir að líklegast komi um fjögur til fimm þúsund manns í hellinn á ári. Fólk getur farið á eigin vegum um 150 metra inn en þar er búið að koma upp hliði til að vernda þá klaka og dropasteina sem prýða hann þar innar. Bjarni segir að áður en hliðið hafi verið sett upp hafi hellisgestir brotið úr honum kristalla til að hafa með sér heim.



Þeir sem vilja sjá mikilfenglegasta hluta hellisins verða að fara í skipulagða ferð með leiðsögumanni og segir Bjarni að erlendir ferðamenn sæki svo mikið í þær að leiðsögumaður anni oft ekki eftirspurn. Íslendingarnir láti hins vegar flestir litla innlitið duga. Segja má að gestrisni Víðgelmis þrjóti í kuldaskeiðum en hann lokaðist af ís frostaveturinn mikla árið 1918 og dvaldi í þeim klakaböndum uns hann opnaðist aftur 1930. Aftur lokaðist hann árið 1972 en var opnaður aftur árið 1991 þegar hann var orðinn nokkuð þíður.



Víðgelmir er rúmur einn og hálfur kílómetri að lengd og 148 þúsund rúmmetrar eða á við 250 einbýlishús.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×