Innlent

Illugi afhenti undirskriftalista

Freyr Bjarnason skrifar
Illugi Jökulsson afhendir Birgi Ármannssyni undirskriftalistann.
Illugi Jökulsson afhendir Birgi Ármannssyni undirskriftalistann. Fréttablaðið/Valli
Um 6.600 nöfn eru á undirskriftalista sem Birgi Ármannssyni, formanni utanríkismálanefndar Alþingis, var afhentur í gær.

Í yfirlýsingu Illuga Jökulssonar, sem fór af stað með listann þann 21. júlí, er tilgangurinn með listanum að „skora á íslensk stjórnvöld að beita sér fyrir slitum á stjórnmálasambandi við Ísrael vegna framferðis Ísraelsmanna á Gasasvæðinu undanfarnar vikur“.

Á listanum var textinn m.a. svohljóðandi: „Jafnvel þótt viðurkenndur sé réttur Ísraels til að snúast til varnar gegn hryðjuverkaárásum þykir okkur augljóst að hernaður Ísraels nú fari langt fram úr því sem eðlilegt getur talist. Með þeim hernaði hafa Ísraelsmenn nú þegar drepið hundruð saklausra óbreyttra borgara. Þar á meðal eru tugir barna.“

Í yfirlýsingunni til utanríkismálanefndar kemur fram að þeim sem skrifuðu undir þyki ljóst að diplómatískar leiðir dugi ekki. „Við teljum ekki að þær mótbárur við stjórnmálaslitum, að þau muni gera hjálparstarf erfiðara, séu nægar til að vega upp á móti þeim eindregnu skilaboðum til Ísraelsmanna sem fælust í stjórnmálaslitum. Aðrar leiðir munu þá einfaldlega finnast til að gera gagn hinum hrjáðu íbúum á Gasa og Vesturbakkanum.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.