Innlent

Vill að ríkisstjórnin geri meira en að senda máttlausa fordæmingu

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Fjöldi fólks hlýddi á ræður Salmanns Tamimi, Sveins Rúnars Haukssonar og Örnu Aspar Magnúsardóttur á Lækjartorgi í gær.
Fjöldi fólks hlýddi á ræður Salmanns Tamimi, Sveins Rúnars Haukssonar og Örnu Aspar Magnúsardóttur á Lækjartorgi í gær. Fréttablaðið/Arnþór
„Þetta var snarpur og kraftmikill fundur,“ sagði Arna Ösp Magnúsardóttir, fyrrverandi sjálfboðaliði í Palestínu, eftir að hún hélt ávarp á mótmælafundi félagsins Ísland-Palestína á Lækjartorgi í gær. Þar tjáði almenningur andúð sína á þeim blóðsúthellingum sem hafa orðið á Gasa-svæðinu undanfarið.

„Megininntakið í ræðunni minni var afskiptaleysi alþjóðasamfélagsins og þetta þögla samþykki.“

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu voru um þrettán hundruð manns á fundinum og segir Arna mætingu hafa verið framar björtustu vonum.

„Mér fannst baráttuandi í fólki.“ Hún minnir á að Ísland hafi viðurkennt Palestínu sem frjálst og fullvalda ríki. „Það gefur okkur meira vægi í að þrýsta á ríkisstjórnina um að beita sér harðar í þessu máli og senda ekki bara frá sér máttlausa fordæmingu sem hefur engar afleiðingar í för með sér.“

Auk Örnu ávarpaði hópinn Salmann Tamimi, varamaður í stjórn Íslands-Palestínu, og Sveinn Rúnar Hauksson, formaður félagsins, og listamennirnir Ellen Kristjánsdóttir og KK sungu nokkur lög.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×