Lífið

Úr Verzló til Versace

Kristjana Arnarsdóttir skrifar
Orri starfar hjá Cintamani í Bankastrætinu en hann hefur einnig verið fenginn í að sitja fyrir á auglýsingum fyrirtækisins.
Orri starfar hjá Cintamani í Bankastrætinu en hann hefur einnig verið fenginn í að sitja fyrir á auglýsingum fyrirtækisins. Vísir/Arnþór
„Nú er ég búinn að fara þrisvar sinnum út í svokölluð sérverkefni, sem þýðir að það merki sem ég er að fara að sýna sérstaklega fyrir kaupir mig í raun út. Þá þarf ég ekki að fara í „casting“ eða prufur,“ segir fyrirsætan Orri Helgason en hann gekk sýningarpallinn hjá ítalska tískuhúsinu Versace í Mílanó um helgina þegar vor- og sumarlínan fyrir árið 2015 var sýnd.

Orri hefur starfað sem fyrirsæta í þrjú ár eða allt frá því Helgi Ómarsson ljósmyndari kom auga á hann í Bónus. Þetta er í annað sinn sem Versace fær Orra til að sýna fyrir sig en Calvin Klein vildi einnig fá hann í ákveðið verkefni í fyrra.

„Ég var mjög óöruggur í þessu og bransinn alveg nýr fyrir mér þegar ég fór út á vegum Calvin Klein. Það endaði með því að ég var ekkert notaður. Ég er svo búinn að fara tvisvar út á vegum Versace á þessu ári, fyrst í janúar og svo núna um helgina. Það var miklu betra skipulag á þessu hjá þeim núna,“ segir Orri. Hann segir sérverkefnin töluvert betri en allt harkið í kringum prufurnar en þá þurfi maður að hafa örlítið meira fyrir hlutunum.

„Ég var á mjög flottu fjögurra stjörnu hóteli sem var í kortersfjarlægð frá sýningarstaðnum. Ég þurfti svo bara að vinna í um það bil tuttugu mínútur á dag. Síðast var mér sagt að mæta snemma um morguninn og svo beið ég allan daginn án þess að gera neitt.“ Orri segist hafa nýtt frítímann í Mílanó til að fara í ræktina og hanga með herbergisfélögunum en tveir aðrir strákar deildu með honum hótelherbergi. Orri útskrifaðist af viðskiptabraut í Verzlunarskóla Íslands í vor en í sumar starfar hann í verslun Cintamani í Bankastræti. Þrátt fyrir augljósa velgengni í fyrirsætustörfunum segist hann ekki vita hvort hann vilji leggja þetta alfarið fyrir sig.

„Hér er á landi er voðalega lítið að gera í þessum bransa en ég tek að mér eitt og eitt verkefni. Ef ég vil fá fleiri stór verkefni þá þarf ég í raun að flytja út, maður þarf svolítið að koma andlitinu á framfæri sjálfur. Ég þarf að ræða þessi mál við Eskimo, módelskrifstofuna úti og kærustuna. Ég ætla að minnsta kosti að taka mér ársfrí frá skólanum núna, þetta á allt eftir að koma í ljós,“ segir Orri hress.

Orri sýndi vor- og sumarlínu Versace fyrir árið 2015 um helgina.Vísir/Getty
Íslenskar karlfyrirsætur sem slógu í gegn

Nokkrar íslenskar karlfyrirsætur hafa gert það gott erlendis. Þeirra á meðal er Elmar Johnson en hann hefur meðal annars tekið þátt í tískuvikunni í New York og setið fyrir hjá svissneska fatarisanum Strellson. Elmar er hins vegar kominn langt á veg í læknanámi og hefur síðustu ár dregið sig í hlé frá fyrirsætustörfunum.

Marteinn Sindri Jónsson varð einnig vinsæll fyrir nokkrum árum en hann sýndi meðal annars fyrir hina frægu hönnuði Marc Jacobs og Hugo Boss.

Þá starfaði Björn Sveinbjörnsson lengi vel fyrir ítalska tískurisann Giorgio Armani.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×